Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 6/8 2005

Siggalára, 6/8 2005 kl. 19:08:

Mér heyrist á öllu að þarna hafi verið á ferð frönsk uppsetning á Saumastofunni...

Gummi, 8/8 2005 kl. 00:38:

Já, hæ, vona að þið hafið ekki saknað kommentanna minna allt of mikið. Gaman að heyra að þetta fer allt skánandi leiklistarlega séð, og svo versnandi aftur. Fiskidagurinn var fínn, takk fyrir að senda okkur mónakóveðrið.

Júlía, 8/8 2005 kl. 09:28:

Ármann minn. Þú stendur þig eins og hetja.
Fínt blogg hjá þér. Samstarfskona mín heldur að ég hafi gleypt eitthvað, svo mikið hló ég þegar ég las það.

Toggi, 8/8 2005 kl. 12:22:

Frönsk uppsetning á saumastofunni, mínus tónlist, húmor og kalli gúmm.

Aftur í dagbók


6/8 2005

Skroppið til útlanda

Nokkrir ferðaglaðir meðlimir hópsins (Toggi, Hulda, Silja, V.Kári, Hjalti, Dilla og undirritaður) ákváðu að nýta sér nálægð Ítalíu til heimsækja hana sem snöggvast einn part úr degi. Afgangurinn varð eftir í Mónakó og er úr sögunni, allavega í bili. Hoppað var upp í þar til gerða lest, sem troðfull var af fólki í svipuðum erindagjörðum, og svo brunað í kannski svona 20 mínútur uns við vorum stödd í þorpinu Ventimiglia sem undir eins var um umskýrð að íslenskum sið Mygluborg. Ekki var það þó vegna þess að bær þessi væri neitt sérlega grænn eða loðinn. Þarna fer hins vegar fram heljarinnar markaður á hvurjum föstudegi og var ætlunin að kíkja á hann. Þarna var mikið prang, meðfram götum voru endalausir básar sem urðu fljótlega afar keimlíkir og auk þess lítt spennandi. Mikil mannþröng var og ekki auðvelt að komast áfram og komust spakir menn í hópnum að þeirri niðurstöðu að helvíti væri í raun útimarkaður á Ítalíu. Ekki stöðvaði það samt fólk í að versla en á meðal þess helsta sem keypt var voru tvær „unofficial“ treyjur Mónakó-liðsins og af afar metrósexjúal ástæðum keypti Hjalti 2 sambærilegar treyjur Palermo-liðsins.

Hjalti hélt líka upp heiðri landans í hrakförum og tókst að láta óvandaða aðila nappa veskinu sínu úr tösku sem hann bar. Sem betur fer var hann með lítinn pening, ekkert inn á debetreikningnum og nýútrunnið ökuskírteini þannig að skaðinn var fyrst og fremst tilfinningalegur. Svo var kíkt niður í fjöru og formaðurinn keypti sér sundbuxur til að geta buslað. Komst svo að því þegar hann settist í lestinni á heimleið að hann var með lúkufylli af grjóti í buxunum. Ekki spyrja mig hvernig.

Þegar heim til Mónakó kom var fyrirliggjandi að sjá leiksýningar frá Kúbu, Wales og Frakklandi. Sú kúbanska var rifrildi tveggja kvenna og þjónustustúlkna þeirra um hvort maður gleymdi alltaf einhverju (sem maður augljóslega gerir) eða ekki. Verkið endaði á að inn kom karlmaður í handklæði einu saman sem hann svo missti niðrum sig sem snöggvast við mikla kátínu þeirra sem gaman hafa af slíku. Ágætlega ofleikin sýning en fékk dáltið mörg dott og jafnvel svefn hjá sumum. Waleska sýningin var unglingasöngleikur og vorum við Vilborg og Dilla sammála um fyrir sýninguna að svoleiðis ætti bara ekkert erindi á svona hátíðir. En þessi kom svo sannarlega á óvart því þessir krakkar voru þrusu leik- og söngvarar. Verst hvað leikritið var ónýtt. Franska leikritið fjallaði um... hef ekki hugmynd en það var mikið saumað. Undirrituðum varð að orði eftir hana „Þarna fór klukkutími sem ég hefði frekar viljað nota til að telja í mér rifbeinin“.

Hópurinn fjölmennti svo á veitingastaðinn Monkeys og fengum sérlega góðan mat. Sumir fóru svo í klúbbinn, aðrir ekki.

Ármann Guðmundsson

6/8 2005