Siggalára, 8/8 2005 kl. 19:39:
Jeij! Og blað brotið í sögu Hugleix, bloggað allan tímann og á meðan á hátíð stendur og allt!
Er mjög montin af ykkur núna.
Siggi, 8/8 2005 kl. 23:37:
Hér vantar botnlanga við sögur af nískum (Nice-skum) flugvallaröryggisvörðum:
Undirritaður var líka tekinn í gagngera skoðun, líklega vegna talíbansks (eða jússúfsks) útlits og sökum einhvers örlítils málms sem gleymst hafði í vösum. Þegar verði varð svo litið í bakpokann þar sem við blasti forláta flaska af einföldu malti brosti hann út að eyrum, tók í spaðann á hinum meinta hryðjuverkamanni og óskaði til hamingju með góðan smekk.
Toggi, 9/8 2005 kl. 09:28:
Líklega er þetta helsti akkillesarhæll múslimskra terrorista. Það vantar allt malt í þá.
Aftur í dagbók
8/8 2005
FerðalokJæja, þá lýkur þessari ferðasögu. Það kemur í minn hlut að greina frá viðburðum lokadagsins, og ætli ég reyni ekki að skrifa smá súmm líka. Grunar að til þess hafi verið ætlast.
Heimferðin hófst snemma morguns með rútuferð til Nice þar sem okkar ágæta fylgdarkona hún Anna leysti okkur út með knúsi og krósöntum í nesti. Eftir smá þref við liðlausa bókunarkonu með danska einokunarvigt fengum við að koma leikmyndinni yfirviktarlaust um borð og gátum yfirgefið Frakkland. Tíðindalítið flug til Stanstead þar sem við blasti átta tíma hangs. Allskyns áform voru uppi um að nýta það til skeppitúra til London, skoðunarferða í nágrenninu eða tjills á Hampstead Heath. Öll fóru þau fyrir lítið, í fyrsta lagi sökum úrvindunar og í annan stað vegna þess að afþreyingarguðirnir höfðu hagað því svo að tveir "mikilvægir" fótboltaleikir fóru fram meðan á bið okkar stóð. Við bullurnar komum okkur því fyrir á ágætum írskum pöbb í flugstöðinn og horfðum fyrst á Leeds vinna Millwall og síðan á Arsenal lúta í gras fyrir Chelskí. Heilt yfir eru því fótboltaúrslit ferðarinnar okkur í óhag, en við tökum því af karlmennsku. Þeir sem ekki nenntu að horfa á boltann dottuðu eða dóluðu sér á annan hátt þar til hægt var að tékka inn, brjótast í gegnum paranojaða vopnaleit og bíða svo síðasta klukkutímann eftir að Iceland Express flytti okkur heim á skerið. Það skal tekið fram að intékkari þeirra var ekkert nema ljúfmennskan og sá ekkert til fyrirstöðu að við hefðum krossviðinn, málningarteipið og froðuplastið með okkur heim.
Viðurkenningargripurinn sem hátíðin veitti okkur fyrir þátttökuna var í handfarangri undirritaðs og vakti óskiptan áhuga vopnaleitenda enda veglegur málmhlunkur sem í gegnumlýsingu lítur út eins og eitthvað úr
Hrafninn flýgur og þungur eftir því. Það var því farið í gegnum handtöskuna mína af þvílíkri nákvæmni og fagmennsku að unun var á að horfa. Var að hugsa um að segja við manninn: "hvað, treystirðu mér ekki" en gerði það ekki. Að sama skapi lét Hjalti vera að setja upp draumaverkið sitt í ósýnilegu leikhúsi: að rétta vopnuðum lögreglumanni töskuna sína og hlaupa svo í burtu. Góð hugmynd, og gott dæmi um að sumar hugmyndir eru betur komnar sem slíkar. Að því leyti hefðu mexíkóar átt að taka Hjalta sér til fyrirmyndar þegar einhverjum datt í hug að
Rómeó og Júlía með þremur miðaldra Rómeóum og sjö ungum Júlíum væri eitthvað annað en sniðugur botn á setninguna: "Hvernig væri að...".
En allavega, Icelandexpress tróð okkur í vélina sína (þrööööngt...) og þegar ég rankaði við mér á ný var verið að lækka flugið yfir Suðvesturhorninu.
Lending - fríhöfn - farangur - kveðjur - bílferð - eyjarslóð - rót - heim.
Sof.
Og svo vinnan í morgun. Sem er fínt. Þetta var orðið ágætt.
Fljótlega ætla ég að skrifa smá yfirlit yfir sýningarnar sem við sáum og birta það á
Varríusi. Einnig er að mótast í mér áform um að skrifa skýrslu um mónakóreynslu mína í ljósi kynna af öðrum hátíðum og koma á framfæri við einhverja sem málið varðar. Því það er ekki laust við að mér finnist pottur á köflum brotinn í þessum miðpunkti alþjóðasamstarfs áhugaleikhússfólks.Fyrst samt - til að taka af öll tvímæli: Þetta var mikil reynsla. Fjölmargar sýningar og margt nýstárlegt bæði við umgjörðina og leiklistina sem í boði var. Það er frábært að fá tækifæri til að skyggnast inn í leiklistarheim jafn ólíkra þjóða og Bandaríkjanna, Slóvakíu, Japan, Túnis og allra hinna. Yndislegt að mingla við leikhúsfólk og deila reynslu og viðhorfum, eða bara syngja saman. Svo er Mónakó sjálf náttúrulega afar framandi heimur, og umhverfis furstadæmið er margt að sjá. Það er viðtekið viðhorf í Hugleik að leiklistarhátíðirnar sem við höfum sótt skili félaginu verðmætum. Þær auka listræna víðsýni, kynnir okkur fyrir allskyns aðferðum og hugmyndum og gefur okkur mynd af stöðu okkar í hinu stóra samhengi áhugaleikhússins í heiminum. Fyrir nú utan hvað þær eru ljómandi skemmtilegar samkomur með áhugaverðu fólki. Hátíðin í Mónakó var hvað þetta varðar í engu frábrugðin öðrum hátíðum.En samt. Það urðu óneitanlega dálítið skörp skil milli væntinga og upplifunar frá leiklistarlegu sjónarhorni. Ég átti satt að segja ekki von á því að sjá algerlega óboðlega lélegar leiksýningar á þessari hátíð. Var undirbúinn undir leiðinlegar sýningar, óskiljanlegar sýningar, skrítnar og jafnvel listrænt mislukkaðar sýningar. Sitt sýnist jú hverjum um hvað virkar og hvað ekki. En algera, hreinræktaða vangetu var ég ekki búinn undir, og finnst ekki í lagi. Kannski tekur sú staðreynd, að leiklistarleg gæði hátíðarinnar í heild stóðust ekki væntingar, of mikið pláss í uppsafnaðri upplifun manns. Allavega enn sem komið er. Og vissulega voru bæði ágætar og frábærar sýningar samanvið. Strúktúr hátíðarinnar, skipulag, umfang, fyrirkomulag gagnrýninnar; allt er þetta hins vegar mjög umdeilanlegt og ætti að vera hægt að færa til betri vegar.Við sem höfum verið hvað ötulust að þvælast á hátíðir síðastliðin tíu ár eða svo (frá Tønder 1994 til Mónakó 2005 með viðkomu á öllum helstu norrænu hátíðum og nokkrum öðrum til viðbótar) erum komin með ágætis yfirsýn yfir til hvers má ætlast af einni leiklistarhátíð. Mónakó bauð upp á margt af því, en ekki nóg til að réttlæta status sinn eða eigin yfirlýsingar um að vera Créme de la Créme. Hvað veldur og hvort og hvernig má breyta því eru allt stórar spurningar. Sem ekki verður svarað hér. En eins og Sæmundur í Ó færiband! sagði: Gaman samt að fara.Þorgeir Tryggvason
8/8 2005