Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 1/5 2008

Hlynur sjálfur, 3/5 2008 kl. 16:16:

Já nú ríðum við um héruð í öllum löndum á Íslandi....

svava rósinkrans, 3/5 2008 kl. 17:54:

Ó vei hinni fögru fylkingu fyllibyttna og aumingja allra landa. SKÁL Í BOTN

Aftur í dagbók


1/5 2008

Dagur þrjú (ritað í Reykjavík 2. maí):

Á meðan pólitískar trumbur voru barðar á götum Västerås kom leikhópur sér fyrir í fínu stóru leikhúsi. Þar voru alllar græjur af flottustu sort - sviðið algert flæmi með dýpt og breidd sem sæmdi vel Arnarnesvillu Björns og Svövu. Tjald seig niður um miðbik og smækkaði rýmið niðrí Grafarvogskytruna með fallega útsýninu. Fullt af ljósaútbúnaði sem nýttist Hjalta tæknigúrú frábærlega. Allt propps prýðilegt og stórstjarnan Grettir eignaðist ástkonu í líki ísbjarnar-birnu. Eitt tæknirennsli um daginn og að síðbúnum hádegismat loknum var skellt í eitt með búningum og öllu tilheyrandi. Gekk prýðilega. Og svo hófst sýning klukkan 19. Í kringum 200 manns í sal sem höfðu fengið enskan úrdrátt á því sem fram fór á sviðinu. Hlustunin var mögnuð, ekki síst í þöglum senum þar sem látbragð og sviðbrigði skiluðu tilfinningaumróti út í sal. Viðtökurnar að sýningu lokinni voru frábærar og fóru fram úr því sem við höfðum nokkurn tímann þorað að vona þori ég að fullyrða. Að henni lokinni tóku við umræður með leikstjóra sem fékk hópinn upp á svið, hældi leikstjórnarvinnu á hvert reipi og bað um að tvær senur úr sýningunni yrðu leiknar aftur. Hið sjónræna er það sem gerir leikhús spennandi sagði hann, kannski ennþá frekar en það sem við heyrum (sem var auðvitað ákaflega heppileg afstaða fyrir þennan leikhóp við þessar tilteknu aðstæður - fæstir skildu nema orð á stangli í fallega textanum hennar Júlíu) og í senunum sem endurteknar voru var slík vinna áberandi fannst honum. Sænskumælandi delegat hópsins (SHP) sat fyrir svörum, talaði um leikhúslíf á Íslandi, þetta prófesjónella og amatöríska, hvað Hugleikur væri fyrir nokkuð og þar fram eftir götunum. Þetta gekk sem sagt allt eins glæsilega og hægt var að ímynda sér og við rígmontin. Við tók gleðskapur með finnskri tangósöngkonu sem entist fram eftir nóttu. Núna gæti ég best trúað að ámóta partý stæði yfir í Vestuási - sjálf flýtti ég för heim til Íslands til stráksins míns sem sefur nú vært ásamt nýjum vinum sínum, þeim Línu og Níelsi. Hlakka til að heyra meira af leiksýningum í Vesturási - sá bara þrjár sjálf - þar af tvær sem hefðu sjálfsagt sómt sér vel í Iðnó árið 1890. Fáum fregnir af betra pönki síðar meir. Yfir og út!

Elísabet Indra Ragnarsdóttir

1/5 2008