Útsýni á Vesturási
Frá för Útsýnis á hátíð sænska áhugaleikhússambandsins í VästeråsUm sýninguna: Útsýni
Nýjasta efst 29/4 30/4 1/5 2/5 3/5 4/529/4 2008
Kæri Jóli...Dagur eitt!Þessi færsla kemur, eins og dyggir aðdáendur ferðafærslna taka væntanlega eftir, frekar seint.
Það æxlast af þeirri augljósu en framúrskarandi ástæðu að við höfum hvorki haft tíma né aðstöðu til blogga. Dagurinn hófst allt of snemma (4:10) við það að klukkan hringdi í þriðja sinnið og það var ekki lengur flúið að drattast á lappir. Ég arkaði mér upp á Barónstíg þar sem herra Pálsson mætti mér á stórum og góðum skutleigubíl Við ókum sem leið lá niður á BSÍ og gerðum upp bílinn (skipta þurfti um gorma, bremsuklossa og einn driflið auk þess sem lakkið var fremur illa farið).
Þar tók við allt þetta venjulega. Rúta, tékkinn, öryggisskoðun, ómskoðun, litháinn, Bjórogsígó, flugvél, útlönd, rúta, upplönd, Vesteras, Móttaka, Gamlir vinir, hótel, leiksýning (í hinum klassíska Þiðeruðkomináleiklistarhátíðognúfáiðiaðvitahvernigáallsekkiaðgeraþetta Stíl) og svo klúbburinn. Þar byrjuðum við að blanda geði við annað fólk, eins einkennilega og það kann að hljóma, og erum búin að ná ágætis viðkynnum við fullt af fólki sem við eigum varla eftir að hitta aftur næstu árin.
heilt yfir ansi venjubundinn en verklegur fyrsti dagur.Hér fyrir neðan er svo mynd af dýri sem við Frónverjar eigum kannski ekki alveg að svona á götum úti en varð á vegi okkar á heimleiðinni... ég pant skýra hann Patta... eða BaldurGóðar stundir og kveðja frá Kónginum

30/4 2008
Í dag er dagur tvö.Sumir fóru heim snemma í gær og vöknuðu snemma; þeir hinir sömu fóru í leikhúsheimsókn í morgun og skoðuðu proppsið og húsgögn sem við munum nota á morgun. Aðrir blönduðu geði við fólk í gær - eins og maður á að gera, til þess er jú leikurinn gerður - og sváfu á sitt græna eyra meðan proppsskoðun fór fram. Þetta gerði ekkert til þar sem fyrsta sýning dagsins var kl. 13:30. Sú var frá Varmalandi hinu sænska og fjallað var um peninga, en þar sem við skiljum ekki Vermlensku þá fór flest fyrir ofan garð og neðan hjá okkur sem sáum hana. Náðum þó því að átta þúsund krónur voru margnefndar. Sumir sváfu og náðu því ekki einu sinni. Sumir aðrir rugluðust á syningarstöðum og sáu á sama tíma sýningu Nea leikhússins frá Stokkhólmi á öndvegiskonum, sem við hin sáum kl. 16. Aldeilis frábær sýning - frábærar ungar leikkonur og barasta aveg einstaklega vel gerð sýning að öllu leyti. Sýndi einmitt hvernig Á að gera hlutina, og lyfti áhyggjum að nokkru af þeim sem töldu að þetta yrði almennt erfitt, skv reynsu af fyrri tveim sýningum.
Í stuttu hléi fyrir lokasýningu dagsins urðu nokkrar rökræður um hvað flokkast sem matur, og skiptist hopurinn upp milli tveggja fyrirmyndarstaða, Macdonalds annarsvegar og einhvers snobbaðs veitingastaðar sem seldi matinn dýru verði. Meirihlutinn valdi Mickey D.
Síðasta sýning dagsins var Brotna krukkan, sakamálaleikrit í frambærilegum (og nokkurnveginn skiljanegum) flutningi leikhóps frá norður-Svíþjóð.
Að öllum sýningum loknum var gagnrýni með meiru, og svo meiri bjór og meira vín á rigningarkvöldi!
1/5 2008
Dagur þrjú (ritað í Reykjavík 2. maí):Á meðan pólitískar trumbur voru barðar á götum Västerås kom leikhópur sér fyrir í fínu stóru leikhúsi. Þar voru alllar græjur af flottustu sort - sviðið algert flæmi með dýpt og breidd sem sæmdi vel Arnarnesvillu Björns og Svövu. Tjald seig niður um miðbik og smækkaði rýmið niðrí Grafarvogskytruna með fallega útsýninu. Fullt af ljósaútbúnaði sem nýttist Hjalta tæknigúrú frábærlega. Allt propps prýðilegt og stórstjarnan Grettir eignaðist ástkonu í líki ísbjarnar-birnu. Eitt tæknirennsli um daginn og að síðbúnum hádegismat loknum var skellt í eitt með búningum og öllu tilheyrandi. Gekk prýðilega. Og svo hófst sýning klukkan 19. Í kringum 200 manns í sal sem höfðu fengið enskan úrdrátt á því sem fram fór á sviðinu. Hlustunin var mögnuð, ekki síst í þöglum senum þar sem látbragð og sviðbrigði skiluðu tilfinningaumróti út í sal. Viðtökurnar að sýningu lokinni voru frábærar og fóru fram úr því sem við höfðum nokkurn tímann þorað að vona þori ég að fullyrða. Að henni lokinni tóku við umræður með leikstjóra sem fékk hópinn upp á svið, hældi leikstjórnarvinnu á hvert reipi og bað um að tvær senur úr sýningunni yrðu leiknar aftur. Hið sjónræna er það sem gerir leikhús spennandi sagði hann, kannski ennþá frekar en það sem við heyrum (sem var auðvitað ákaflega heppileg afstaða fyrir þennan leikhóp við þessar tilteknu aðstæður - fæstir skildu nema orð á stangli í fallega textanum hennar Júlíu) og í senunum sem endurteknar voru var slík vinna áberandi fannst honum. Sænskumælandi delegat hópsins (SHP) sat fyrir svörum, talaði um leikhúslíf á Íslandi, þetta prófesjónella og amatöríska, hvað Hugleikur væri fyrir nokkuð og þar fram eftir götunum. Þetta gekk sem sagt allt eins glæsilega og hægt var að ímynda sér og við rígmontin. Við tók gleðskapur með finnskri tangósöngkonu sem entist fram eftir nóttu. Núna gæti ég best trúað að ámóta partý stæði yfir í Vestuási - sjálf flýtti ég för heim til Íslands til stráksins míns sem sefur nú vært ásamt nýjum vinum sínum, þeim Línu og Níelsi. Hlakka til að heyra meira af leiksýningum í Vesturási - sá bara þrjár sjálf - þar af tvær sem hefðu sjálfsagt sómt sér vel í Iðnó árið 1890. Fáum fregnir af betra pönki síðar meir. Yfir og út!2/5 2008
Roger, Indra.Þakkir séu öllum góðum vættum að í dag voru engar sýningar fyrir hádegi.Einhverntíma á ellefta tímanum settist resjissörinn Rúnar Lund á Wayne's Coffee að fá sér baunasafa og lesa sænskar bókmenntir. Stuttu síðar hringdi síminn. Þar var undirritaður, sem eftir passlegan skammt af krabbasalatsbagettu og kókakóli þurfti félagsskap (herbergisfélaginn var skilinn eftir sofandi á grænu). Sá var rétt nýsestur þegar Þráinn hringdi, og kom. Svo Hjalti. Svo Júlía. Fimm litlir öfugir negrastrákar.Eftir mikið kaffi fórum við að sjá Erfðaskrána, með hópi frá Karlskoga, heimabæ dýnamítfrömuðarins og friðelskandans Alfreds Nobel. Leikritið fjallað einmitt um Nobel, eða öllu heldur atburðarásina sem fylgdi birtingu erfðaskrár þess mæta manns og leiddi til verðlaunanna frægu. Sögumaður, sem einnig lék vin og samstarfsmann Nobels, sem hann valdi til að framfylgja erfðaskránni, rakti söguna mjög skýrt og á þann hátt að það vakti áhuga. Níu aðrir leikarar, sem sátu í röðum á báða vegu, stukku svo inn og léku ýmis hlutverk. Einna mesta athygli vakti Nobel sjálfur, en það var engu líkara en að kallinn sjálfur hefði verið plokkaður upp af lágmyndinni sem flestir hafa séð á verðlaunapeningunum góðu, og blásið í hann lífi. Enda kom í ljós að maðurinn hefur þann starfa að leika sprengjufríkið sjálft á safni honum til heiðurs í heimabænum. Þetta var þrusuflott sýning, að flestra dómi önnur af tveimur bestu hingað til, ásamt Öndvegiskonunum.Áður en að næstu sýningu kom skutumst við Hjalti á einn grískan til að leita að sameiginlegu eftirlæti okkar: steiktum grískum osti. Hann var unaðslegur, hefðum þó þegið meiri ost og minna gras.Næst sáum við Dauðafélagana frá Örebro, byggt á sænskri kvikmynd frá níunda áratugnum. Skemmtileg saga um mann sem vaknar þunnur með dauða konu á sófanum sínum. Leikurinn stóð því miður ekki alveg undir væntingum, þótt sumt væri vel gert. Líkið bar af.Því næst fórum við á lúmskt góðan veitingastað í mat í boði ATR, sænska Bandalagsins. Þar voru auk okkar hún Ingegerd vinkona okkar, sem hafði veg og vanda af skipulagi hátíðarinnar og stóð fyrir því að okkur var boðið hingað, Anna Karin 1, sem er framkvæmdastjóri Bandalagsins, Anna Karin 2, sem mun vera formaður barnaleikhúsnefndar Bandalagsins og Örjan, leikstjórinn sem nefndur var í síðustu færslu og ku reyndar vera hinn sænski Toggi, sumsé formaður Bandalagsins. Þar var yfir ljúffengum silungi og kjúklingi rætt um allt frá vanda íslensks barnaleikhúss niður í afturendann á Þráni.Stífri leikhúsdagskrá dagsins lauk með sýningu Hagateatern frá Köping á Luktum dyrum eftir SartR (framburður í boði Guðrúnar). Þar með var ljóst að þróunin í leikhúsupplifun dagsins var samfellt diminuendo. Leikur og leikstjórn var á því stigi að það mátti helst giska á að leikararnir hefðu verið sendir heim að læra textann og svo látnir gera við hann það sem þeim datt fyrst í hug fyrir framan nefið á okkur. Ég meina, hvað á það að þýða að láta sér detta í hug að segja bðö á sviði í stað þess að hrækja?Að skipulagðri dagskrá lokinni áttum við stefnumót við vini okkar úr Færeyja- og Kóreuferðum, Malin, Matthias og Josefinu (sem líka var hjálparhella okkar við allt sem laut að sýningunni okkar í gær). Því útstáelsi lauk ekki á næsta bar, heldur hæsta bar héraðsins og þótt víðar væri leitað: á 25. hæð. Tekin var hryllingsstuttmynd þar sem tveir úr hópnum æptu úr sér lungun af uppdiktaðri lofthræðslu á leið niður í lyftunni utan á húsinu. Hjalti hefur aldrei verið jafnhátt uppi ... að éta bjór.3/5 2008
Þá var komið að sýðasta deginum á hátíðinni. Ég vaknaði klukkan 9:04 og fór í morgunmat. Klukkan 9:38 var ég tilbúinn í hvað sem var. Fyrsta sýning dagsins hófst klukkan 10 en það var einskonar kabarett sem bar nafnið Hjartat jagar ensamt. Það var leikhópurinn Kulturföreningen Nya Varvet frá Gautaborg sem flutti þennan "kabarett". Hann fór ágætlega af stað en þegar það fór að líða á dagskrána fór manni að líða eins og maður væri staddur í menntaskóla og einhver vinnuhópur væri að kynna vinnu sínu á þemanu einmanna. Þegar síðan maður sá að sumir leikaranna héldu á textanum fyrir framan sig var mælirinn fullur. Sýningin var einn og hálfur tími sem var allt of langt.Eftir sýninguna var ég hundfúll en labbaði samt með Rúnari og Júlíu ( Rúnari Júll....ha ha ha ) yfir á litla sviðið þar sem Nya Teateren frá Örebrú sýndi barnaleikrið Lilla Kritcikeln. Sú sýning hófst klukkan 12. Sú sýning var alveg frábær. Falleg og vel leikin sýning og að mínu mati ein sú besta á hátíðinni. Hress og kátur gekk ég með þeim Rúnari og Júll í miðbæinn þar sem við fengum okkur smá hressingu áður en við örkuðum í áttina að Sigurðarsenu. Á leiðinni hittum við Hjalta sem sat aleinn á bekk við járnbrautarstöðina...ekki veit ég hvað hann var að gera en hann var glaður að sjá okkur og slóst í hópinn. Nokkrum sekúndum síður mættum við Sigga en hann var með ferðatösku í eftirdragi...ekki veit ég afhverju en hann var glaður að sjá okkur og slóst í hópinn. Aðeins 4 mínútum síðar mættum við Guðrún en hún stóð utangáttar undir brúnni á leiðinni....ekki veit ég afhverju en hún var glöð að sjá okkur og slóst í hópinn.Næsta sýning var síðan klukkan 14 en það var jafnframt síðasta sýningin. Það var sýning ungmenna frá Vesterås á Pang Pang du er död. Virkilega flott og áhrifamikil sýning. Sýning sem snerti mann virkilega og margir áhorfenda gegnu grátandi út að sýningu lokininni. Flott að enda hátíðina svona.Um kvöldið var síðan standandi partý...og þá meina ég bóktaflega standandi partý því það voru allt of fáir stólar og borð á staðnum þannig að maður þurfti að borða standandi. Við stóðum og sátum með ungum snótum frá Stokkhólmi en það voru leikkonurnar úr sýningunni Presidentskorna en það var sú sýning sem mér fannst flottust á hátíðinni. Þegar leið á partýið komu á sviðið háaldraðir en frábærir þungarokkar...eða eitthvað...og héldu ball fyrir okkur. Rúnar og Júll hreinlega þeyttust um dansgólfið og þegar lagið Born to be Wild kom misstum við Siggi okkur gersamlega og nánast féllum í trans. Hjalti og Guðrún sáu um að allt þetta yrði til á filmu.Undir miðbik partýsins ákvað ég síðan að það væri kominn tími fyrir mig að skipta um leikfélag og gekk ég því í leikfélagið Ersnas og Kirunas en þau leikfélög eru í norður Svíþjóð. Til að fá inngöngu í félagið þufti ég að semja lag og flytja það síðan standandi upp á borði. Lagið sem ég samdi heitir Hikkihiirvi en það þýðir Elgur sem svitnar mjög mikið undir kríkanum. Eftir þetta frábæra partý var síðan haldið heim á leið. Rúnar og Júll yfirgáfu partýið reyndar aðeins fyrr þar sem skósólarnir þeirra yfirhitnuðu á dansgólfinu. Siggi, Hjalti og Guðrún ákváðu síðan á leiðinni að vera með basar fyrir heimilislausa og féll það í mjög góðann jarðveg. Ég aftur á móti var stilltur og fór heim að sofa.4/5 2008
Síðasti dagurinn í Svíþjóð og raunar bara dagpartur því við eru á leið heim.Eins og við mátti búast voru fótaferðatímar fólks æði mismunandi. En við náðum sameiginlegri stund á leiðinni frá hótelinu á umferðamiðstöð bæjarins. Eftir það skildu leiðir meira og minna þó ferðaleiðin væri hin sama. Við tvö, sem neituðum ættingjum um að sækja okkur til Keflavíkur af því við vildum halda hópinn enduðum ein í rútunni en áttum fína stund saman
Ef ég vil súmmera upp sænsku sýningarnar hef ég á tilfinningunni að við höfum bæði séð það besta og það versta í sænsku leikhúsi, a.m.k. vona ég það hvað það seinna varðar. Tvær sýningar stóðu algjörlega upp úr sem toppleikhúsupplifun. Það voru Presidentskorna (Öndvegiskonur) og Testamentet.
Mjög ólíkar sýningar. Sú fyrri leikin af kornungum stelpum sem náðu manni alveg um leið, gengu alla leið í gróteskunni og gerðu hlutverkin að sýnum þrátt fyrir að vera leika mikið upp fyrir sig samkvæmt fyrirmælum höfundar
Hin sýndi manni hvað það er hægt að segja sögu á fallegan og skemmtilegan hátt. Þú horfðir á leikarann sem hann sjálfan og þegar kom að honum í verkinu sást persónan taka yfir og eins þegar atriðinu lauk þegar leikarinn var aftur hann sjálfur, og allt gert án nokkurrar áreynslu og oft án þess að maður tæki eftir því. Engar síldargöngur þar.
Flestar hinar voru eins og sjá má í fyrri bloggum áhugaverðar á hinn ýmsasta máta, utan þriggja sem eru með því versta sem ég hef séð lengi. En maður lærir svo sem líka af því.
Eftir sýningarnar vkom að því sem kallað var á hátíðinni Samtalen. Suzanne Crepault sem er leikmyndahönnuður, fjallaði um leikmynd og búninga og Örjan Herlitz, leikstjóri og leiklistarkennari talaði um sýningarnar. Yfirleitt fór það fram á mjög uppbyggilegan hátt. Hann kallaði leikara úr viðkomandi sýningu upp á sviðið og tók stutt atriði úr verkinu yfirleitt þannig að hann fékk leikarana til að breyta einhverjum smáatriðum og sýndi þannig hvernig halda mætti áfram með vinnuna.
Sýningin okkar, sem ég tel að hafi verið með toppsýningunum fékk svona samtalsmeðferð líka. En þar lét hann, annars vega Indru og Sigga í langri þögulli senu og hins vegar Guðrúnu í stuttu eintali, sýna gæði vinnunnar. Hvernig spennu og lífi er haldið í þögninni í fyrri senunni og hvernig unnið er með texta og hann byggður upp í þeirri seinni.
En nú er komið að lokum. Kæru vinir: Guðrún, Indra, Siggi, Þráinn, Hjalti og júlía. Þið stóðuð ykkur frábærlega á fimmtudaginn við nýjar og erfiðar aðstæður. Löguðuð ykur möglunarlaust að breyttum innkomum, nýjum staðsetningum og húsgögnum og rúlluðuð upp hljómburðinum. Já og Hjalti, þú fékkst að leika þér í alvöru græjum og gerðir það ótrúlega vel á stuttum tíma. Til hamingju með þetta og til hamingju Júlía og takk fyrir að hafa fengið að vera með.
Það er góð tilfinning að geta endað skrykkjóttann leikhúsferilinn með þessarri sýningu.
Kv