Sá frægi, 5/5 2008 kl. 09:25:
Hehemm...þú meinar hinn víðfræga afturenda
Aftur í dagbók
2/5 2008
Roger, Indra.
Þakkir séu öllum góðum vættum að í dag voru engar sýningar fyrir hádegi.
Einhverntíma á ellefta tímanum settist resjissörinn Rúnar Lund á Wayne's Coffee að fá sér baunasafa og lesa sænskar bókmenntir. Stuttu síðar hringdi síminn. Þar var undirritaður, sem eftir passlegan skammt af krabbasalatsbagettu og kókakóli þurfti félagsskap (herbergisfélaginn var skilinn eftir sofandi á grænu). Sá var rétt nýsestur þegar Þráinn hringdi, og kom. Svo Hjalti. Svo Júlía. Fimm litlir öfugir negrastrákar.
Eftir mikið kaffi fórum við að sjá Erfðaskrána, með hópi frá Karlskoga, heimabæ dýnamítfrömuðarins og friðelskandans Alfreds Nobel. Leikritið fjallað einmitt um Nobel, eða öllu heldur atburðarásina sem fylgdi birtingu erfðaskrár þess mæta manns og leiddi til verðlaunanna frægu. Sögumaður, sem einnig lék vin og samstarfsmann Nobels, sem hann valdi til að framfylgja erfðaskránni, rakti söguna mjög skýrt og á þann hátt að það vakti áhuga. Níu aðrir leikarar, sem sátu í röðum á báða vegu, stukku svo inn og léku ýmis hlutverk. Einna mesta athygli vakti Nobel sjálfur, en það var engu líkara en að kallinn sjálfur hefði verið plokkaður upp af lágmyndinni sem flestir hafa séð á verðlaunapeningunum góðu, og blásið í hann lífi. Enda kom í ljós að maðurinn hefur þann starfa að leika sprengjufríkið sjálft á safni honum til heiðurs í heimabænum. Þetta var þrusuflott sýning, að flestra dómi önnur af tveimur bestu hingað til, ásamt Öndvegiskonunum.
Áður en að næstu sýningu kom skutumst við Hjalti á einn grískan til að leita að sameiginlegu eftirlæti okkar: steiktum grískum osti. Hann var unaðslegur, hefðum þó þegið meiri ost og minna gras.
Næst sáum við Dauðafélagana frá Örebro, byggt á sænskri kvikmynd frá níunda áratugnum. Skemmtileg saga um mann sem vaknar þunnur með dauða konu á sófanum sínum. Leikurinn stóð því miður ekki alveg undir væntingum, þótt sumt væri vel gert. Líkið bar af.
Því næst fórum við á lúmskt góðan veitingastað í mat í boði ATR, sænska Bandalagsins. Þar voru auk okkar hún Ingegerd vinkona okkar, sem hafði veg og vanda af skipulagi hátíðarinnar og stóð fyrir því að okkur var boðið hingað, Anna Karin 1, sem er framkvæmdastjóri Bandalagsins, Anna Karin 2, sem mun vera formaður barnaleikhúsnefndar Bandalagsins og Örjan, leikstjórinn sem nefndur var í síðustu færslu og ku reyndar vera hinn sænski Toggi, sumsé formaður Bandalagsins. Þar var yfir ljúffengum silungi og kjúklingi rætt um allt frá vanda íslensks barnaleikhúss niður í afturendann á Þráni.
Stífri leikhúsdagskrá dagsins lauk með sýningu Hagateatern frá Köping á Luktum dyrum eftir SartR (framburður í boði Guðrúnar). Þar með var ljóst að þróunin í leikhúsupplifun dagsins var samfellt diminuendo. Leikur og leikstjórn var á því stigi að það mátti helst giska á að leikararnir hefðu verið sendir heim að læra textann og svo látnir gera við hann það sem þeim datt fyrst í hug fyrir framan nefið á okkur. Ég meina, hvað á það að þýða að láta sér detta í hug að segja bðö á sviði í stað þess að hrækja?
Að skipulagðri dagskrá lokinni áttum við stefnumót við vini okkar úr Færeyja- og Kóreuferðum, Malin, Matthias og Josefinu (sem líka var hjálparhella okkar við allt sem laut að sýningunni okkar í gær). Því útstáelsi lauk ekki á næsta bar, heldur hæsta bar héraðsins og þótt víðar væri leitað: á 25. hæð. Tekin var hryllingsstuttmynd þar sem tveir úr hópnum æptu úr sér lungun af uppdiktaðri lofthræðslu á leið niður í lyftunni utan á húsinu. Hjalti hefur aldrei verið jafnhátt uppi ... að éta bjór.
Sigurður H. Pálsson
2/5 2008