Sagnasafn Hugleiks

Man ég vorglaða vinda

Texti
Árni Hjartarson
Lag
Árni Hjartarson

MIDI  PDF

Man ég vorglaða vinda
um vellina fara svo létt,
kvöldrjóðar hlíðar og háfjallatinda,
hestana taka á sprett.
Við stefndum öll niður að nausti,
nóttin þar beið okkar löng.
Fiðlan var strokin, – við stigum í dans
við strengjanna dillandi söng.

Við ströndina hafmeyjahópur
heillaður vatt sér í dans,
marbendlar lyftu sér löðrinu úr
í lokkandi gleðifans.
Man ég hve margir þá hurfu;
Maggi og Stína inn með sjó,
Inga og Skúli í skóginum týndust,
en Skaft svaf vært úti í mó.

Man ég er tvö ein við ýttum
árabátnum frá möl,
man ég hve ástleitnar Ægisdætur
undurblítt struku um kjöl.
Alla tíð er ég síðan
ókunnan reika um stig
og hlusta á ölduna hvísla við sand,
hjarta mitt þráir þig.

Man ég er morgunsólin
merlaði á haf og jörð
og fiðlunnar síðasti tregatónn
titrandi barst út á fjörð.
Menn söðluðu fákana fráa
og fóru brott smáhópum í
og aftur hófst daganna litlausa líf
uns lokkaði dansinn á ný.