Draumdúett
Texti | |||
---|---|---|---|
Árni Hjartarson | |||
Lag | |||
Árni Hjartarson |


Sveinn heitinn
Þótt hjarta mitt sé stirt í stoppi
ég stundum finn þar heitan eld,
Málfríðar á Miklakroppi
mun ég vitja strax í kveld.
Ég seiði hana í sætum draumi
og svíf með henni á astralplan.
Höndinni ég læði í laumi
um lær en klíp ei of né van.
Málfríður
Ég þykist kenna fima fingur,
mér finnst ég þekkja handtök snör,
hjarta mitt í sælu syngur
mér sýnist hér vera Sveinn í Spjör.
Dúett
Stígum dans á draumalendum,
dönsum meðan tunglið skín.
Veitum útrás okkar kenndum
áður en að nóttin dvín.
Sveinn heitinn
Á hverjum dansi er einatt endir.
Ákaflega finnst mér skítt
hve dauft ég skynja dýrsins kenndir.
Dauðir gagnast konum lítt.