Sagnasafn Hugleiks

Amors örvahríð

Texti
Árni Hjartarson
Lag
Árni Hjartarson

MIDI  PDF

Sveinn
Fagrir eru lokkar sem falla henni um kinn
sem foss í silungsá.
Fögur eru augun, ljósið skært þar skín.
Skyldu þau mig sjá?

Sæunn
Fagrir eru lokkar sem leiki blær í skóg
um ljósa sumarnátt.
Fögur eru augun svo blá og skörp og skýr.
Ég skelf og missi mátt!

Dúett
Ég hef lent í Amors örvahríð
ég aldrei á'ann trúði.
Í brjóstið heitt mig hitta skeytin tíð,
hjarta mitt er nú sem nálapúði.

Sveinn
Fagrar eru varir þær mynda ástarorð
og yrða kannski á mig.
Fagrar eru hendur en hringinn vantar enn.
Hún er yndislig!

Sæunn
Fagrar eru varir þær vætir tunga næm,
hve vild'eg snerta þær.
Fagrar eru hendur, ég halda vil þær í.
Ég held að ég sé ær.

Dúett
Ég hef lent í Amors örvahríð
ég aldrei á'ann trúði.
Í brjóstið heitt mig hitta skeytin tíð,
hjarta mitt er nú sem nálapúði.