Huldustef
Texti | |||
---|---|---|---|
Árni Hjartarson | |||
Lag | |||
Árni Hjartarson |


Allt mitt fólk er á brott,
ein ég reika hér villt,
nötrar jörð eins og veikburða, vindskekið strá.
Eldar funa um fjöll,
fellur aska á völl,
hraunið flæðir úr gínandi gjá.
Pabbi, hvar ertu? Hvar ertu móðir mín?
Mikið hef ég reynt að leita þín.
Horfin er hulduþjóð,
harma syng ég mitt ljóð,
horfin álfanna byggð í eldsins glóð.
Ég fer djúpan um dal
dimman skóg, jöklasal
leita austan við mána og sunnan við sól.
Gái í lindir og laug,
lít í kuml, skoða haug
geng í kletta og kanna sérhvern hól.
Einmana geng ég yfir kaldan Kjöl,
kosta fárra á ég núna völ.
Ég fer suður um sand
sundrast átthagaband.
Sveima ein, nú er horfið Norðurland.