39½ vika
Æfingadagbók 22/3 12/3 5/3 4/3 26/2 25/2 20/2 14/2 12/2 7/2 3/2 30/1 29/1 28/1 26/1 24/122/3 2008
Lokaspretturinn bara. Leikmyndin er nær öll samankomin - á bara eftir að hnýta nokkra lausa enda. Hurðin er komin á sinn stað og verður ekki haggað, Addi er byrjaður að hanna ljósin, Hrefna hljóðmyndina og leikhópurinn liggur væntanlega undir feldi yfir helgina með handrit og páskaegg. Sjálf er ég búin með mín propsverkefni og á bara eftir að skella þeim á rétta leikara.Það hefur verið ansi mikil keyrsla á öllum síðustu vikurnar sem er ástæðan fyrir því að þetta blogg hefur fengið að sitja á hakanum. Þessi helgi verður nýtt til að græja allra ytri þætti leikritsins svo og fyrir hópinn að ná andanum fyrir lokaátakið sem hefst stundvíslega eftir kvöldmat á mánudag.12/3 2008
Það hefur reynst ævintýralega erfitt að púsla saman rennslum með öllum leikurum en okkur tókst þó með herkjum að stefna öllum ( mínus Bjössa) á heilt rennsli í gær. Það setti pínkulítið strik í reikninginn að annar leikhópur var búinn að hertaka ca. 6 fermetra af sviðinu fyrir frumsýningu daginn eftir og mátti ekki hreyfa við því - og svo var mætt á svæðið svakalega hurð sem opnaðist í vitlausa átt. Leikhópurinn sýndi engu að síður snilldar takta í að vinna sig fram hjá þessu veseni og gekk rennslið bara ansi vel - framan af. Nú er mál að leggjast alvarlega yfir seinustu atriðin, skiptingarnar verða vörksjoppaðar yfir helgina og hurðin skal - fjandinn hafi það! - snúa rétt.Frumsýning 28. mars - or die trying.5/3 2008
Jæja, á sama tíma og marsmánuður rennur í hlaðið eru rennsli á 39 ½ viku komin í Möguleikhúsið. Nýjar hugmyndir fæðast í tíma og ótíma og persónusköpunin hefur tekið stakkaskiptum hægt og bítandi.Hin ábyrgðafulla og sjóndapra Friðmey hefur vopnað sig með fyrsta flokks úðabrúsa sem hún notar óspart á elsku gladíóluna sína og önnur plöntuleg fyrirbæri. Tommi virðist svolítið “túlípanalegur” í grænum bol með rauða húfu og Friðmey sparar ekki dropana á slíka gersemi.
Ella Dís – gella skvís er fyrsta flokks sóðapía sem hrækir tyggigúmmíi á stofnanagólf án umhugsunar og Hreinn “klámkjaftur” húsvörður er ekki lengi á svæðið til að kroppa slummuna burt og stinga henni uppí ginið á sjálfum sér. Ekki má gleyma að Hreinn er nú orðinn alvöru húsvörður með naglbít, sem nýtist vel við tyggigúmmísslummusköfun sem og mörkun tuskulamba.
Sveitasjarmörinn Valur er farinn að frussa kaffi og hímir í felum undir skrifborði fyrir vinnufriðaspillinum og er orðinn æ kindarlegri yfir klámvísunni hálfkveðnu.
TALANDI UM KINDUR! “Kindakast” gæti hæglega orðið að “þjóðarsporti Hugleiks”, en ígrundaðar kast- og griphreyfingar Tomma og Vals þóttu til fyrirmyndar.
Líkamstjáningar Tomma verða vandaðri með hverri æfingu og spurning hvort hann sé ekki bara svona fljótur að tala með líkamanum heldur en fljótur að hugsa.Þessi æfing reyndar fámenn, bæði í hópi leikara og leikstjórnar, en þó var miklu áorkað!
4/3 2008
Jasso, eitthvað er bloggið farið að dala og best að trana sér aðeins fram. Þú tekur í nefið? Nú, ekki það nei. Jæja, hvað um það. Við bruggðum undir okkur hinum betri fæti og héldum í Möguleikhúsið í gærkvöld, og skilst mér að hér munum við halda okkur eftir því sem mögulegt er, þó að mögulega geti mögulegt (og ómögulegt?) brölt möguleikhúsmanna gert þann möguleika ómögulegan einhver kvöld. Rennt var í atriði Haralds og Ellu Dísar. Ella Dís gengur nú ansi sóðalega um og sá ég mér ekki annað fært en að bjarga þar málum. Gekk það eins og í sögu. Að því loknu var rennt í lokakaflann, eftir miklar vangaveltur um það hvort hægt yrði að troða mér (nú, eða Gretti) í skjalaskápinn. Gekk það einnig eins og í sögu (rennslið, altso). Fyrsti áhorfandinn mættur á pall, lítill frændi Svönu, og ekki laust við að drengurinn yrði skelfdur að sjá frænku sína umhverfast í Lóló. Hygg ég þó að hann hafi nú ekki hlotið nein óbætanleg ör á sálinni, að heitið geti.Annars er ekki úr vegi að enda þetta á einni stöku:Möguleikhús magnað ermá þar finna svuntu
Ekki er laust þó við það hér
að langi mig í kaffikær kveðja,
Hreinn
26/2 2008
Drifum í að renna fyrripartinum þennan þriðjudag. Sum atriðin höfðu ekki verið tekin fyrir nokkuð lengi, og sáust þess merki, auk þess sem textakunnátta var brotakennd. Eftir vænan bunka af nótum sáum við þann kost vænstan í stöðunni að renna þessu bara aftur. Munurinn var sláandi - mikið af texta og lögn er greinilega alveg til staðar hjá fólkinu okkar, bara ekki alveg á takteinum ennþá.25/2 2008
Sunnudagsrennslið var sérstakt fyrir þær sakir að loksins var kominn vísir að eiginlegri leikrmynd. Júlía, Guðrún og ég fórum í húsgagnageymslu eina á vegum ríkisins og fengum að leika þar lausum hala og viða að okkur leikmynd - borðum, stólum, skjalaskápum o.fl. Blikkuðum síðan smiðinn á staðnum til að laga fyrir okkur hurð og hringja í sendibíl til að ferja allt á Eyjarslóðina. Einhver hefur síðan tekið sig til og blikkað sendibílsstjórann því hann neitaði að taka við greiðslu og er kostnaður við leikmynd því enn í sögulegu lágmarki (0 kr.)Okkur áskotnaðist einnig á sunnudaginn hvíslari, tónlistarhöfundur, förðunarfræðingur og altmuligtmanneskja. Þykjumst við rík sem aldrei fyrr.En já rennslið... við byrjuðum á því að fara yfir símakaflann. Ýmsar góðar hugmyndir ultu upp á yfirborðið en við eigum samt eitthvað eftir að vinna meira í þessari senu. Síðan var öllum seinni helmingnum rennt - handritslaust - og var gífurlegur munur frá því um síðustu helgi. Greinilega margt gerst í þessum senu í vikunni og gaman að sjá þegar allt byrjar að þokast áleiðis að endamarkinu.20/2 2008
Hugleiksvefurinn átti við einhverja tilvistarkreppu að etja um helgina og því röskuðust uppfærslur á dagbókinni. Hún er þó komin á sinn stað og mál að halda áfram þar sem frá var horfið.Æfingar hafa haldið áfram jafn og þétt á nær hverjum degi og handrit verða æ sjaldséðari. Nú er að bresta á sá tími þegar farið verið að renna heilum atriðum og er brýn þörf á. Þótt auðvelt sé að skipta leikritinu upp í marga búta og æfa það án samhengis er ýmislegt forvitnilegt sem kemur í ljós þegar bútunum er púslað aftur saman. Þriðjudagsæfingin sýndi það berlega þar sem farið var vel í lok 9. atriðis og fyrri helming þess 10. Annars verður Valur alltaf kindarlegri og kindarlegri og Tommi hefur síaukna þörf til að tjá sig líkamlega. Margrét varð miklu óléttari heldur en Vera Líf sem á þó að vera komin lengra á leið. Friðmeyju reyndist erfitt að finna - fyrir utan það að hún virðist vera með plöntublæti á háu stigi og búin að fylla stofnunina af gladíólum.Efst á óskalista leikstjórana þessa dagana (fyrir utan handritslausar æfingar og áhyggjulausan frumsýningardag) er eiginleg leikmynd og vísir að búningum - helst bumbum. Held að við séum að lenda niðri á því að það sé búningamál fremur en propsmál.14/2 2008
Hreinn og Margrét mættu hress og kát á æfingu í gærkveldi. Fyrr um kvöldið höfðu Haraldur, Vera Líf, Tommi og Ella Dís grúskað í sínum senum.... en ég hef víst ekki hugmynd um hvað gekk á þar því ég mætti á svæðið þegar þau voru að ljúka!En þegar Hreinn og Margrét voru mætt var hafist handa við að renna nokkrum sinnum í gegnum tvö atriði þar sem Margrét reiðist karlmenn enn og aftur.... aumingja konan er bara að drepast úr biturleika!! Hreinn æfði sig í að sveifla kústi yfir ímyndaðann haus Tomma (þið skiljið þegar þið sjáið þetta "live"!) og ota blautum klósettbursta að fólki... afskaplega lekkert!!
En annars fannst mér æfingin ganga vel í kvöld....fyrir utan smotterís textarugl.... en það kemur :)Takk fyrir mig!
Ragnheiður Erna Kjartansdóttir