Steindórsblogg
Dagbók af æfingum á „Enginn með Steindóri“Um sýninguna: Enginn með Steindóri
Nýjasta efst 7/4 27/4 3/5 5/57/4 2005
"Það var mikið"Loksins fá Steindórsmenn málið. Það er búið að standa til frá fyrstu æfingu að hefja dagbókarritun um æfingaferlið, en núna verður sumsé gerð alvara úr. Hugmyndin er að við skiptumst á að skjóta inn fregnum af æfingum, hugleiðingum um gang mála og annað þvíumlíkt.Nemahvað: Í gær var farið í gegnum bróðurpart fyrri hluta verksins og einkenndist æfingin mjög af tvennu: Nístingskulda í húsinu sem kom óneitanlega niður á orkustiginu og fjarveru einnar leikkonunnar. Þar sem helsta verkefni æfinga næstu daga verður endurvinnsla með tilliti til grundvallarbreytinga á hvernig við sjáum karakterinn sem viðkomandi leikkona leikur þá varð æfingin ekki sérlega gagnleg, umfram það almenna hvað það er gott að æfa sig. Við erum stödd þar í ferlinu að búið er að "blokkera" allt verkið, þ.e. sviðssetja, staðsetja, plasera, hanna sviðsferð, hvað svo sem á að kalla það. Afstaða persónanna hverrar til annarrar, og helstu einkenni eru nokkuð ljós orðin og hægt að fara að leika sér innan þess ramma sem við erum búin að teikna. Við erum búin að vinna töluvert í handritinu, stytta soldið, fleyga langar replikkur og flytja til senubúta. Höfundurinn er fjarri góðu gamni, er að læra hermennsku og vígbúnað í bretlandi, en við finnum vissulega fyrir góðum straumum frá henni og dásamlegt skopskynið sem ósar af textanum hennar. Hlökkum til að hitta hana þegar líður að frumsýningu, en hún ætlar að sjálfsögðu að heiðra okkur með nærveru sinni.Já, og svo er búningameistarinn farinn að reka inn nefið og gauka að okkur hugmyndum og flíkum. Gaman að því.27/4 2005
Meiri sinnuleysingjarnir þessir Steindórar, ekki fyrr búnir að starta dagbók (vonum seinna), þá snarþagna þeir aftur.Svo við förum hratt yfir sögu þá hafa æfingar gengið bærilega þrátt fyrir ýmis skakkaföll vegna veikinda og annarra fjarvista. Við erum búin að búa til stórkostlega skúlptúra sem prýða munu heimili bankastjórahjónanna, höfundurinn er kominn til landsins til að leiða okkur síðasta spölinn og í gær fluttum við Möguleikhúsið. Það urðu vitaskuld fagnaðarfundir hjá þeim sem hafa unnnið þar áður, enda hlýlegt hús að leika í.3/5 2005
Í gær urðu sannkölluð kaflaskil á æfingaferlinu. Allt í einu höfðum við sýningu í höndunum!Æfingin gekk alveg einstaklega vel, mikil orka í fólki og erum við því ekkert stressuð yfir framhaldinu. Þetta var líka í fyrsta sinn sem leikhópurinn var allur saman kominn, í búningum, með ljósum svo það hafði sitt að segja. Heimili bankastjórahjónanna er orðið heimilislegt og verður gaman að fá að bjóða ykkur öllum heim í stofu :)
Í kvöld verður síðan síðasta rennsli, general á morgun og frumsýning á fimmtudag.. Þetta er sem sagt að skella á..