Sagnasafn Hugleiks

Bingó!

Bloggað í Vinabæ

Nýjasta efst

15/12  16/12  20/12  4/1  6/1  8/1  9/1  10/1  11/1  13/1  14/1  15/1  18/1  19/1  20/1  21/1  22/1  24/1  25/1  27/1  28/1  29/1  11/2  14/2  18/2  21/2  21/2  22/2  24/2  25/2  26/2  3/3  6/3  12/3  13/3  20/3  30/3  31/3  1/4  2/4  3/4  4/4  5/4  6/4  7/4  8/4  9/4  10/4  11/4  12/4  13/4  14/4  15/4  19/4  21/4  22/4  25/4  30/4  1/5  2/5 

15/12 2006

Og það verður Bingó! Pælingar, pælingar, pælingar, samningar, þreifingar ... viltu vera memm? já ... nei ...

Hrefna Friðriksdóttir

Athugasemdir: 1

16/12 2006

Hittingur hjá Helga Ró í Kó. Lesið saman - Bingóvélin gamla góða í heiðursæti.
En - fljótlega í kjölfarið - Anna Begga bakkaði út ... Erla Dóra snaraðist inn! Ójá! Gott mál.

Hrefna Friðriksdóttir

20/12 2006

Hópur hittist á Eyjaslóð. Sprell, bolti, síld (svona bara fyrir jólin). Spilað Bingó með ópal - gaman!
En! Helgi Róbert hætti við .... Frosti hætti á það!! Ójáhá.
Takk fyrir það.

Hrefna Friðriksdóttir

4/1 2007

Gleðilegt ár og æfing á Eyjaslóð. Allir kátir og enginn að hætta við :-) Upphitun, upphitun, hornabolti, loftbolti (83). Hvernig ertu svo liturinn brúnn?

Hrefna Friðriksdóttir

6/1 2007

Æfing á Eyjaslóð. Óskaplega er þessi hópur nú sætur sem kakó - og kampavín! Snú snú og Tom Jones innpúlsar ... all by myself ... snökt. Bingóstjórinn: Og er bara enginn með neitt B-15 ...?

Hrefna Friðriksdóttir

8/1 2007

Eyjaslóð. Loftbolti 211! Góð!! Tékkað á bingóstjóratöktum ... B-4 ... býður einhver betur? Ráðist í fyrstu síðurnar - hvað hefur maður með sér í Bingó?

Hrefna Friðriksdóttir

9/1 2007

Það er hægt að hlæja mikið í hornabolta. Er Traktorinn nothæfur? Nei ... held ekki. Skál fyrir Campari Nönnu. Þessum hópi finnst Campari ekkert mjög gott ... urðu öll ógurlega skrýtin og skemmtileg.

Hrefna Friðriksdóttir

10/1 2007

Farið í Bingó í Vinabæ - mikill rannsóknarleiðangur. Hvar á maður að byrja! Reykjarmökkur, elli-örorkuþegar og ungir, bleikt, brúnt akrýl, litað nema í rótina, tattú, líma spjöldin, brosað ...? nei lítið - spjallað ...? nei minna - merkja, merkja, merkja, mónótónn - og það er kallað bingó - fleiri með bingó, fleiri með bingó, fleiri með bingó? Og svo byrjar allt upp á nýtt. Sérstakt - En ég vann!!!!

Hrefna Friðriksdóttir

11/1 2007

Kópavogur. Hvernig bregst maður við því að fá ekki tölu - hlakka til að heyra tölu - fá tölu? Bingó-lagið ógurlega sungið - og verður sungið aftur. Fyrstu hugmyndir að upphafi.

Hrefna Friðriksdóttir

13/1 2007

Eyjaslóð. Bingólagið aftur - allir með einn bókstaf, hí hí, það er erfitt! Kynnt upphafshugmynd, bannað að segja en hún er skemmtileg. Brynjólfur gekk í hjónaband, án þess að vera viðstaddur. Höfundur byrjar að fleyga.

Hrefna Friðriksdóttir

14/1 2007

Mosgerði - súpa og inspírasjón. Mikið - mikið af hugmyndum. Blackman-pingpong - are you bingo the clowno? - lukkugripir, alls konar tónlist, ópera, gamba, selló, píanó, rokk, pop, latin útgáfur með meiru, súkkulaðiís, frumsamið ljóð, bingóstaðreyndir, kungfu og myndbrot ... Vissuð þið að það eykur líkur á því að vinna i bingói ef kona heitir Margrét - og ef maður heitir Jói?

Hrefna Friðriksdóttir

15/1 2007

Hjáleigan. Heimsviðburður - 6 reita hornabolti! Þá fyrst er hlegið og það er gaman!! Svo lifnuðu við 6 beljur, bingóstjórabeljan flissaði bara! Þá 6 hýenur, óttalega krypplingslegar en hlæja voða skemmtilega. Hvernig fer Nanna með textann sinn sem belja sem drekkur kakó? Og hvernig er takturinn í klámmyndabingói með sirkustónlist? Er nema von að maður spyrji?
Frí á morgun - höfunda/búninga/leikmynda/props ónefnan þarf að reyna að komast í búðir..

Hrefna Friðriksdóttir

18/1 2007

Ehe já ég átti víst að blogga í gærkveldi um æfinguna sem var þá en þar sem það er hálftími í næstu æfingu þá get ég alveg gert það núna...ekki satt?
Erum alltaf að verða betri og betri í sex-reita hornabolta! Það er shit erfitt og 3x meira gaman!
Reyndum líka að finna miðjuna í okkur sem var mislétt fyrir fólk...auðvelt að finna, auðvelt að týna...
Tókum allt kveldið í að fara yfir 4 síður! Það var líka shit erfitt og ótrúlega gaman! Verður mjög flott sena ;o) Líka gaman að vera komin með smá propps sem hægt er að prófa! Stórskemmtilegt alveg!
Mikið níðst á minni og eru hinir barasta að leggja hana í einelti get ég svarið!!!
Hýenurnar mættu á svæðið og voru hungraðar! Svo var eitthvað um fiðurfénað líka!

Hvað ætli gerist í kvöld? Fylgist með á morgun!

Jenný Lára Arnórsdóttir

19/1 2007

Sex reita boltinn og Ekkert gengið með í seinni hálfleik - þvílíkur fyrirgangur! Bingólagið í nýrri útfærslu, hvort er nú erfiðara að eiga að segja eitthvað eða þegja? Brynjólfur gekk aftur í hjónaband en að þessu sinni var brúðurin ekki viðstödd ... hvað gerist næst? Að öðru leyti upprifjun á fyrstu ca 17 síðunum - alltaf bætist eitthvað við. Leikstjórinn tilkynnti svo hver verður sérstakt fórnarlamb á laugardaginn, alltaf gaman að níðast á leikurum .. nei ég meina persónum ... he he

Hrefna Friðriksdóttir

20/1 2007

Og það var níðst á ... Víði! Nei ég meina Gííísslaaa! Hálfgerðar sjálfpyntingar reyndar. Ansi góð æfing - plottuð úr mikil sena sem ég held að allir hafi verið sammála um að verði drulluflott.

Hrefna Friðriksdóttir

21/1 2007

Ein æfing á Eyjaslóð og svo förum við aftur í Hjáleiguna. Bingólagið enn og enn og aftur - með músík. Athugað hvernig bræðrunum gengur í skólanum og svo haldið áfram að vinna slagsmál. Leikarar fengu að fara snemma heim, höfundur og leikstjóri urðu eftir og byrjuðu að leggja næsta kafla - það verður mikið lífshlaup.

Hrefna Friðriksdóttir

22/1 2007

Jæja þá eru það veikindin - tilheyrir hverju æfingaferli. Þegar byrjað er að píska leikaragreyin þá hrynir þetta eins og flugur. Júlía og Erla Dóra frá, Jenný fékk að segja örfá orð en fékk svo aðallega að fara heim og þá voru bræðurnir eftir með bingóstjóranum. Gísli átti afmæli en svo datt auðvitað allt í drama, dauða og djöfulgang. Spurning er hvað fá margar moppur hlutverk í þessu leikriti?

Hrefna Friðriksdóttir

24/1 2007

Fórum í sexreitabolta og Ágústa náði loksins að verða kóngur, nokkrum sinnum meira að segja. Alltaf lofar Víðir að vera góður strákur og skjóta engan út en hann gleymir því jafn óðum. Smá ,,take-tína” og síld (við erum orðin helvíti góð segir leikstjórinn). Svo æfðu Brynjólfur og Ingibjörg sig í því að búa til börn með hjálp hinna. Rosalega skemmtilegt.

Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson

25/1 2007

Minns bara ógeðslega duglegur í kvöld. Sæðislausi eiginmaður hamaðist fyrst, svo kom getnaðarlegi bingóstjórinn til sögunnar, mín ófrísk og svo bara orðin mamma áður en klukkutími var liðinn af kvöldinu! Maður þarf ekkert að vera lengi að því sem lítið er... ó, nei...
Spennt fyrir laugardeginum þegar ýtt verður í gegnum bróðurpartinn. Mér finnst svo rosa gaman að sjá Víði boxa við sjálfan sig og svo fæ ég að
gifta mig (:=
Bara fjör semsagt á æfingum og síldin "on fire".

Erla Dóra Vogler

27/1 2007

Jæja! Í dag var farið yfir mest allt sem komið er - þetta var ekki rennsli, þetta var ruðningur! En það var gaman. Svei mér þá ef þetta verður ekki bara sýning eftir allt saman - og bara ekki svo slæm :-)
Við fengum tónlistarmennina okkar í hús, Sváfni og Ágústu Evu - það var frábært. Ekki einasta fannst þeim gaman heldur var líka svo skemmtilegt hugarflug á eftir þar sem allir voru svo sáttir og samtaka.
Svo er bara að ryðjast í restina.

Hrefna Friðriksdóttir

28/1 2007

Annar ruðningur til að skoða betur. Seigari en í gær en þá er bara að pússa - pússa - pússa. Það verður að pússa bingókúlurnar og passa að týna þeim ekki ef maður ætlar ekki týna lífinu.

Hrefna Friðriksdóttir

29/1 2007

Ja hérna! Það er líka hægt að æfa þetta leikrit án þess að allir mæti - áhugavert!
Bræðurnir böðluðust áfram og börðust með/við bingóstjórann. Svo er bara að læra textann sinn aftur og bak og áfram og þá er þetta komið ... e þaggi bara?!

Hrefna Friðriksdóttir

11/2 2007

Hið alvakandi auga höfundahönnunaraðstoðarleikstjóradagbókarskrifarans hefur verið fjarverandi um hríð. En æfingar átt sér stað og verið ágætar. Liðið gallað upp og mætt í bingó og handrit nokkuð fjarverandi sem betur fer - lykilatriði að gera bara eitt í einu hvort sem það er að ganga, stoppa, líta, lyfta, láta, segja eða þegja! Það er alveg hægt að taka klukkutíma í að æfa 2 bls ...

Hrefna Friðriksdóttir

14/2 2007

Fyrirhuguð æfing í kvöld féll niður vegna veikinda. Leikstjóri og höfundaaðstoðarogsvoframvegis áttu í staðinn langan og góðan fund um leikmynd, búninga, músik, ljós, reyk og aðra effekta. Það var pælt, mælt, hugsað og hlustað. Vantar ekki hugmyndirnar - erfiðara að velja úr. En - hjartað í bingóvélina hefur verið pantað og er ásamt öðru efni á leiðinni og svo er bara að smíða!

Hrefna Friðriksdóttir

18/2 2007

Allir mættir nema Jenný. Byrjað frá byrjun og staulast af stað. Rifjað upp, slípað og stælt. Breytingar hafa orðið á hljóðliðinu, Sváfnir hætti við og höfundurinn hélt því áfram fitli sínu við fundin lög. Hljóðdiskur prufukeyrður, Björn Thorarensen mættur búinn til aðstoðar. Þetta verður samvinnu samsuða. Hluti hópsins vék snemma af æfingu til að sýna annars staðar. Leikstjórinn hélt áfram með karlpeninginn og sprengdi út senur með tilþrifum. Drama dauðans!

Hrefna Friðriksdóttir

21/2 2007

Í dag keyri ég um með hjartað í bingóvélinni í farþegasætinu. Fallegt!

Hrefna Friðriksdóttir

21/2 2007

Æft og æft. Sem þetta skrifar æfði sig í að smíða með lögfræðilegri aðstoð Jóhanns Haukssonar. Þetta verður lögleg leikmynd hvort svo sem hún verður löguleg eða ekki. Keyri þó enn um með hjartað úr vélinni - varðveiti það eins og sjáaldur augna minna.
Var orðin svo lagin með verkfærin að ég réðst næst á eintölin og klippti þau aðeins til - við mismikinn fögnuð leikaranna - ekki af því að textinn væri ómissandi í sjálfu sér heldur þóttust þau vera búin að læra þessi ósköp! En það er nú enginn óhultur í þessu Bingói...

Hrefna Friðriksdóttir

22/2 2007

Svona líka glettilega góð æfing! Stímað í gegnum stóran part af verkinu og allir svo fínir og flottir! Texti, kraftur og sprellisprell.
Er mér sagt. Ég var að smíða - boraði, raðaði og skrúfaði eins ég ætti lífið að leysa. Bráðum koma blessuð borðin og börnin hlakka aldeilis til - og ég líka.
Voða skemmtilegt það sem ég sá af æfingunni - þetta er svo flinkur leikstjóri! Og - rauðu boxhanskarnir eru flottir. Jájá.

Hrefna Friðriksdóttir

24/2 2007

Þá var komið að hálfgildingsrennsli vel inní verkið. Stjórnum beggja leikfélaga boðið og við vonum að þeim hafi líkað vel. Músik prufukeyrð, sumt kom vel út, annað þarf að prófa betur. Allir með einhverja útfærslu af borði. Addi blikkaði okkur með ljósaborðinu. Alltaf eitthvað að gerast!

Hrefna Friðriksdóttir

25/2 2007

Til stóð að reyna að komast í lok verksins. Í staðinn var staldrað við bút og unnið með hann. Það er textinn og músíkin og hreyfingarnar og propsið og ... þetta er ekki auðvelt! En það kemur!! Ekki hægt að smíða bingóborðið því ans%&djö$%&hel&#$ Húsasmiðjan afgreiddi ekki rétt efni. En það kemur ...
Hjarta bingóvélarinnar er enn í bílnum mínum, vafið inn í grænt teppi - það er kalt úti.

Hrefna Friðriksdóttir

26/2 2007

Jæja - nú er búið að leika þetta leikrit til enda - höfundur nokkuð grimmur með skærin en svona er þetta bara - þessir leikarar verða bara að spila úr því sem þeim er rétt! Og þau eru voða voða flink. Aðeins eftir að snúa upp á snilligáfu Gísla og Ólafíu í skuldabréfatangóinum ...
Svo er búið að renna leikritinu öllu í gegn einu sinni í einum rykk! Með kúlum af ýmsum stærðum og bragði og öllum 40 hljóðkjúunum sem komin eru á þessu stigi. Það var skemmtilegt. Svei mér þá ég held að þetta geti bara orðið sýning! Enda er leikstjórinn stórsnjalli búin að snúa svo flott upp á þetta allt saman. Það verður spennandi að krulla þá enda sem ennþá standa til boða. Tala nú ekki um þegar ljósameistararnir verða búnir að fremja sín töfrabrögð!

Hrefna Friðriksdóttir

3/3 2007

Bingó-partý í Mosgerðinu! Svaka-skaka-stuð. Það var spilað - ekki bingó heldur tengingaspil sem gekk út á að leika - eða sem sagt að ljúga. Virkilega misgóðir lygarar í þessum annars ágæta leikhóp. Við komumst að því að leikstjóri vor lýgur mjög sannfærandi. Svo var mikið mikið eldað og borðað og drukkið og baðað sig. Gott gott.

Hrefna Friðriksdóttir

6/3 2007

Æfing með öllum nema Frosta. Farið í gegnum fyrstu 10-15 síðurnar eða svo - hreinsað og pússað. Allir í nýjum skóm og örlítið af breyttri músík. Ásta mætti og byrjaði að berja í þau textann sem er svo erfitt að muna með öllu öðru sem þarf að gera. Svo voru skipulagðar frekari æfingar - fáar í mars en í apríl verður sett í fluggírinn og allt gerist!

Hrefna Friðriksdóttir

12/3 2007

Það er komið bingóborð! Með hjarta og öllu saman!! Náttlega ettir a mála þa o sona en það er þarna og hjartað snýst eða slær eða þannig.
Strákaæfing í kvöld - Frosti borðaði kúlur sem enginn vildi - það vildu bara allir ekkert og enginn neitt (hljómar eins og ég hafi skrifað þetta). Samt var spilað og spilað og spilað - maður verður bara að spila úr því sem manni er rétt!

Hrefna Friðriksdóttir

Athugasemdir: 1

13/3 2007

Mikið að gera í Hjáleigunni. Unglingar í ham inni á sviði svo við buðumst til að byrja inni í sal. Byrjuðum á að bresta í örlítið ásláttaratriði en þá spratt fram náfölur bæjarstarfsmaður úr næsta herbergi - þar var í gangi bæjarstjórnarfundur í beinni útvarpsútsendingu! Ég er viss um að trommuslátturinn hefur ekki gert annað en að lífga upp á þetta fyrir áheyrendur sem kunna að hlusta á bæjarstjórn í beinni ...
Fengum loks sviðið. Bingóstjórinn sýndi frábæralega liðuga takta í takt við lag - Jiiíiihaa! Hann er búinn að spora út allt borðið sitt.
Aðrir fengu líka að reyna röddina og hrynjandi með undirspili. Góð!
Ég verð bara að segja það - Fiðlubarnið verður svoooo fallegt...

Hrefna Friðriksdóttir

Athugasemdir: 1

20/3 2007

Bingóæfingar í hægagangi eins og gert hafði verið ráð fyrir í marsmánuði. Sl. sunnudagskvöld var rennsli en þessi skrifari fjarri góðu gamni - að snudda eitthvað í útlöndunum. Rennslið var víst seigt og súrt - Addi debúteraði sem hljóðstjórnandi með nýja hljóðhandritið og stóð sig víst ansi vel.
En - í kvöld var sem sagt annað rennsli. Miklar væntingar bundnar við það, búið að ryðja sviðið, bjóða sérstökum gestum, tæknimenn og PR fólk mætt - aldeilis að taka púlsinn á stöðunni! Hvað gerist? Allur hinn íslenski Bahá´í trúarsöfnuður réðst í að fagna sínum áramótum inní sal - svo var mér sagt - og þetta var ekki bæna- og hugleiðslustund! Karókíið hentar greinilega fólki á öllum aldri óháð trú og hæfileikum - því hærra því betra!! Kettlingavælið í okkur virtist ekki hafa hin minnstu áhrif á hina trúuðu en þau höfðu svo sannarlega áhrif á einbeitingu og upplifun af rennslinu. Hattinn ofan fyrir hópnum sem tókst samt að skrönglast í gegnum þetta, gefa áhorfendum víst nokkuð góða mynd og löngun til að sjá meira. Buðum Grímu velkomna sem ætlar að reyna sig við hljóðstjórnina. Ýmislegt nýtt dót prófað sem skrifarinn kom með frá útlöndum - Frosti skattmann t.d. góður með grænu gleraugun. Fínt flug á eftir með snillingnum Einari Sam - fleiri fundir í farvatninu með skotheldu PR fólki.
Nú mun leikhópurinn ekki hittast allur fyrr en 1. apríl - en þó mun nú verða dundað við eitt og annað í millitíðinni - og sagðar hér fréttir af því jafnóðum. Fylgist með!

Hrefna Friðriksdóttir

30/3 2007

Það er föstudagskvöld - það ilmar allt af málningarlykt - og borðin taka á sig lit.

Hrefna Friðriksdóttir

31/3 2007

Jæja þá er næstum allur hópurinn mættur á æfingu - nema Júlía sem er að ameríkanast. Búið er að dunda í ýmsu síðan síðast - leikstjórinn hefur pískað nokkra leikara prívat og í pörum - hönnuðurinn hefur hannað eitthvað ... örugglega - og það er m.a.s. byrjað að PR-ast.
Á æfingunni er stigið varlega til jarðar - leikstjórinn er lasinn.

Hrefna Friðriksdóttir

1/4 2007

Hönnuður mættur í Hjáleiguna um miðjan dag - enginn annar sýnilegur þeim megin í húsinu en úr salnum heyrðist bollakliður og fjaðrafok í fermingarveislu ... og ... er þetta aprílgabb??? ... það heyrist ... B-5 ... I-23 ... Ó-72 ... ó já - það er verið að spila Bingó í fermingarveislunni! Ósköp ljúft að heyra við hönnunarvinnuna. Síðar tínist fólk í hús - rennsli um kvöldið með örlitlum ljósum og prufu á enn fleiri hljóðum með meiru. Leikstjórinn enn lasin en stendur sig eins og hetja. Gestir mættir sem komu með gagnlegar ábendingar - það stefnir allt í svolitlar breytingar - ACTORS BEWARE!

Hrefna Friðriksdóttir

2/4 2007

Svona líka ljómandi gott rennsli - allir með alveg sprellandi margt gott og skemmtilegt. Leikstjórinn hressari og lék við hvern sinn fingur í nótum ... segir hljóðhönnuðurinn. Hljóðkjúin eru ennþá 51 en það gæti breyst ...
Annar helmingur ljósahönnuða lasinn og framkvæmdahliðin á hliðinni - hugsum meira um það á morgun. Já maður verður bara að spila úr því sem manni er rétt ... eins og sagt er.

Hrefna Friðriksdóttir

3/4 2007

Bútar og rennsli - undirrituð mætti seint aldrei þessu vant en stemmingin góð.

Hrefna Friðriksdóttir

4/4 2007

Rennnsli, rennsli, rennsli! Alltaf betra og betra. Leikarar voru kynntir fyrir nýjustu breytingum á leikritinu - bæði nauðsynlegar og réttar - þau tóku því að einstakri fag- og ljúfmennsku. Það er svo gott í þessu! Þá er bara að breyta hljóðmyndinni til samræmis ... og fína propsið mitt sem dettur út! Nú verður ágreiningur milli höfundar og hönnuðar. Leikmyndargerðarkonan stillti strengina og dundaði sér í húsinu fram á nótt ..

Hrefna Friðriksdóttir

5/4 2007

La-ha-ha-angur dagur.
Hljóðkonan byrjaði að breyta hljóðmyndinni um morguninn - svo var mætt með leikstjórann í hús til að ræða við tæknimenn f. æfingu. Æfing byrjaði kl. 12 - þá þurfti að reyna að búa til einhverja mynd á smink - æfingar, æfingar, rennsli til kl. 18 - þá fundur með leikstjóranum - þá aftur í leikhúsið að spá og spekúlera með ljósamönnum og hengja upp - en ég slapp heim fyrir miðnætti. Frí á morgun og meira að segja langur dagur segja menn...

Hrefna Friðriksdóttir

6/4 2007

Það er frí í dag. Sem sagt tími til að búa til la-ha-ha-angann tossalista - vinna á honum eitthvað - endurhljóðblanda, ganga frá alls konar pappírum um alls konar hluti og alls konar propsi og bara ... alls konar ...

Halelúja!

Hrefna Friðriksdóttir

7/4 2007

Ekki frí í dag! Unnið áfram að gerð kynningarmyndbands sem Ásta er að sníða saman af stakri snilld.
Rennslið? Tja ... hva skal segja ... kannski bara sem minnst :-)

Hrefna Friðriksdóttir

8/4 2007

Dundað við að mála, föndra og hengja upp ljós. Rennsli um kvöldið - talsvert betra en daginn áður. Þetta er allt að koma - bara eina tölu enn - bara réttu töluna!
Hópurinn óskaplega samtaka í lokin um að skella sér á krá ... sem sagt á páskadag ... ...

Hrefna Friðriksdóttir

9/4 2007

Jæja! Þá er komið að endurstöflun á atriðum. Djarft en þarft.
Ágætt rennsli og svo gríðarleg ljósatörn - leikstjóri og ljósamenn að kjúúúúúúa og kjúúúa og kjúúa - djöfuldómur af þessu alveg hreint.
Sameiginlegur stjórnarfundur um kvöldið, ýmislegt sem þarf að gera fyrir frumsýningu og stressið magnast.
Áttaði mig á því seint um kvöldið að það eru 3 kvöld eftir fram að generalprufu - svaf ekki í nótt!!

Hrefna Friðriksdóttir

Athugasemdir: 1

10/4 2007

Skipulag og skipulag - tækni, kynningarmál, leikskrá, auglýsingar, sýningarplan .... já já ...
Og svo auðvitað leiksýningin - óskaplega er þetta nú góður og flinkur leikstjóri og duglegur, hæfileikaríkur og fallegur leikhópur.

Hrefna Friðriksdóttir

11/4 2007

Þá er kominn tími til að lýsa þessa sýningu - ljósameistarar og leikstjóri búnir að liggja yfir því öllu saman - og nú er að kjúa. Byrja að kjúa réttara sagt en þetta mjakast. Heyrist að það vanti enn nokkra tugi kastara og alls konar eitthvað spling, splong - en þetta kemur. Já já.
Myndbandið tilbúið - klöppum fyrir Ástu. Forsíða leikskrárinnar frábær og hún öll að taka á sig mynd, við fáum hana algerlega á síðustu stundu úr prentun eins og venjulega.
Svo er það nýja kúluatriðið - það verður svo skemmtilegt - og ég ætla ekki að segja meira!

Hrefna Friðriksdóttir

12/4 2007

Allt að gerast eins og á að gerast á þessum endaspretti. Hraðæfingar á hinu og þessu, hraðkjúað, hraðsminkað og svo loksins rennsli - segi það enn og aftur - þetta er allt að koma.

Hrefna Friðriksdóttir

13/4 2007

Generálsdagur. Spennandi!
Tiltekt í ýmsum hornum, koma salnum í stand, koma einhverri hönnun á þetta smink og smyrja því á sinn stað. Festa þetta, þrífa hitt, klippa, líma og lita. Leikararnir svona dásamlega samstilltir, útlærðir og upphitaðir. Góð gusa af gestum og bara skrambi góður generáll. Ennþá svolítið verið að prufukeyra ljósin en hvað ... frumsýning er nú ekki fyrr en á morgun. Catalina á eftir ... þó ekki of lengi ...

Hrefna Friðriksdóttir

14/4 2007

Upp er runninn fínn og fagur frumsýningardagur. Þá er bara að reyna að dunda sér við eitthvað fram til klukkan fjögur, þá er mæting, rennsli og lokafrágangur. Það má alltaf dunda sér, blanda smá meiri músik og brenna eins og einn disk eða svo - þeir hafa gubbast reglulega í tugatali úr tölvunni í þessu ferli.
Rennslið var þarft, fín upphitun fyrir leikara, ljós og hljóð.
Svo stappfylltist litli salurinn af prúðbúnu fólki - ljós út - sýning inn og við sýndum og sýndum og sýndum. Ég er óskaplega glöð, þakklát og alhliða hamingjusöm með allt og alla! Held að gestir hafa skemmt sér nokkuð vel líka.
Frumsýningarpartíð var ... eins og þau eiga að vera!
Þetta er gott líf.

Hrefna Friðriksdóttir

15/4 2007

Önnur sýning tókst ágætlega - áhorfendur virtust skemmta sér vel. Júlíu tókst að skapa heilmikla spennu í upphafi - nokkrar dramatískar þagnir - það verður nú að vera smá spenna í þessu! En allt í besta lagi - leikhópurinn fór upp á tærnar og það skilaði sér í kraftinum. Þessar elskur.

Hrefna Friðriksdóttir

19/4 2007

Þriðja sýning á sumardaginn fyrsta. Einhverjir sem ætluðu að koma gleymdu sér í sól og sumri (ekki sumaryl) en það mættu nú samt um 25 manns. Sýningin var ágæt, svolítið vélræn, vantaði meira hjarta. Klikk kvöldsins:
Ingibjörg: Er ekki allt í lagi Gumm ... eh ... Brynjólfur minn?

Velkynntir áhorfendur flissuðu ógurlega.

Hrefna Friðriksdóttir

21/4 2007

Miðnætursýningin. Fáir áhorfendur en óskaplega skemmtilegir og satt best að segja langbesta sýningin til þessa! Svona á að gera þetta. Alveg sprúðlandi.

Klikkið?
Ingibjörg: Sæl ég heiti Ólafía
Nanna (eftir sekúnduþögn): Sæl Ingibjörg! Sæl ...

og þá var hlegið.

Hrefna Friðriksdóttir

22/4 2007

Ég skutlaði inn nýjum hljóðdiski og kastaði kveðju á mitt fólk áður en ég hentist á frumsýningu á allt öðru leikriti í Þorlákshöfn. Var að fá fréttir eins og sönnum fréttaritara sæmir - sýningin gekk ljómandi - ég er ekki búin að véla út úr þeim neitt klikk sem er í frásögurnar færandi. Næsta sýning verður á þeim fróma degi 25. apríl nk. Þá finnst mér að það eigi að mæta 42 áhorfendur ...

Hrefna Friðriksdóttir

25/4 2007

Já já! Þetta var merkilegur dagur. Ógurlega góður af því að ég átti afmæli - ógurlega vondur af því að Kópavogsbær hótaði að henda okkur út úr Hjáleigunni á morgun - allt stefndi í að sýningin yrði sú síðasta! Allt fór í gang, allir töluðu við alla, smessað, smalað og suðað í síma, báða í einu. Sýningin var góð - fullt hús - ég fékk fullt af blómum og gjöfum og kossum og gleði. Neita að trúa því að þetta verði síðasta sýningin!!

Hrefna Friðriksdóttir

30/4 2007

Með harðfylgi tókst að tryggja 3 sýningar í viðbót. Þessi sýning var nú nokkuð langt frá okkar besta, eitthvað sjúsk í gangi, einbeitingaskortur, textaklikk... Maður er náttúrulega óskaplega kröfuharður. Koma svo - koma með réttu tölurnar!!

Hrefna Friðriksdóttir

1/5 2007

Svona á að gera þetta! Gera mig stolta!
Sprúðlandi sýning - sú næstsíðasta.

Hrefna Friðriksdóttir

2/5 2007

Og nú er komið að því - síðasta sýningin á Bingó. Fullt hús - fullt af fjöri. Flott sýning. Til hamingju og hjartans þakkir til allra sem komu að þessu.
Þetta var ekki bara síðasta sýningin á Bingó (amk í þessari umferð) - heldur síðasta sýningin í Hjáleigu LK við Fannborg. Formaður LK hélt ræðu og öllum áhorfendum var boðið til léttrar veislu að sýningu lokinni. Skál fyrir LK - fortíð og framtíð.

Svo er bara að halda áfram að spila Bingó - einhvers staðar - alls staðar ...

Hrefna Friðriksdóttir

Athugasemdir: 1