15/2 2007
Bloggleysi á bloggleysi ofan. Í dag meira að segja æfingaleysi, sökum veikinda. Reyndar hefur verið talsvert um veikindi og eitthvað um að æfingar falli niður af þeim sökum.
Á mánudagskvöldið tókum við gegnumgang, með þeim lögum sem til eru. Það var geysiskemmtilegt.
Kvöldið eftir tók Margrét leikstjórafrú okkur svo í smá karakterbyggjandi vörksjopp, fýsískt og skemmtilegt. Margir karakterarnir virtust vera farnir að lifa góðu lífi utan leikritsins.
Sigurður H. Pálsson
4/2 2007
Nú er rúm vika liðin frá síðasta ranti. Þó annað mætti halda vegna bloggleysis hefur verið æft á fullu upp á næstum hvern einasta dag síðan. Enn er það sama sagan: Það er fullt að gerast í atriðunum sem ég er í og alltaf jafn gaman. Ég geri bara ráð fyrir að það sé sama sagan á öðrum vígstöðvum.
Í dag er frí frá leikæfingum, en í staðinn verður söngæft í stórum stíl í Tótuskúrnum í Stórholtinu. Það verður örugglega heldur ekkert leiðinlegt.
Sigurður H. Pálsson
Athugasemdir: 1
26/1 2007
Enn er þetta allt jafn niðurbútað, og verður það eflaust áfram um hríð.
Fyrir þá sem ekki þekkja til: Í leikritinu eru 27 atriði. Í hverju atriði koma fyrir að meðaltali
2,7 persónur (þessi tala er fengin þannig að bloggari ranghvolfdi augunum, leit á æfingaplan síðustu viku, ranghvolfdi augunum aftur, skrifað töluna 2,3 --- ranghvolfdi svo augunum einu sinni enn og breytti í 2,7).
Þetta hefur í för með sér mikið rennerí á Eyjarslóðinni. Oddur Bjarni raðar saman æfingaplani af mikilli list, þannig að það kemur vart fyrir að nokkur sitji í setustofunni góðu og nagi táneglurnar. Yfirleitt röltir maður inn á tilskildum tíma, nær að sötra hálfan kaffibolla (sem leikstjórinn hefur oftar en ekki hellt upp á), gengur á svið og gerir stöff í 1-2 tíma, og svo fer maður heim, sáttur. Maður fær stundum á tilfinninguna að það sé eitthvað lítið um að vera, en það þarf bara aðeins að stoppa og hugsa um strúktúr verksins, og hvað hlýtur að vera að gerast þegar maður er ekki á staðnum sjálfur, og þá gengur það yfir.
Held ég sé bara skemmdur af því að vera í:
a) Sýningum sem eru þess eðlis að það eru meira og minna allir að æfa alltaf. Það er magnaður andskoti, krefjandi, gaman og oft árangursríkt. Sjá
Memento,
Patataz og nú
Bingó.
b) Sýningum þar sem er engin ástæða til að allir séu á svæðinu, en leikstjórinn hefur ekki rænu á að koma í veg fyrir að stór hluti leikhópsins eyði klukkustund eftir klukkustund, eða jafnvel kvöldi eftir kvöldi, í að sitja, sötra kaffi, leita að umræðuefnum (eða umhvísliefnum) og reykja úr sér lungun. Við látum vera að nefna dæmi um þetta.
Sigurður H. Pálsson
Athugasemdir: 2
24/1 2007
Nú var labbað í gegnum allt dótið. Sumt var liprara en annað, þar sem sumt er algerlega óæft, en eitthvað búið að þreifa á öðru.
Þetta var (að mér skilst) gert í tvennum tilgangi:
1. Að gefa okkur leikurunum betri tilfinningu fyrir flæðinu en hægt er að fá með lestri einum, og leyfa okkur að hafa dáldið gaman í leiðinni.
2. Að sýna það sem hægt er að sýna þeim mikla hæfileikasöfnuði sem búið er að draga saman í lýsingu, leikmynd og búninga: Guðmundi Steingíms, Jóni Erni, Dillu og fleirum.
Þetta var gaman. Þó það nú væri. Ef þetta hefði verið leiðinlegt þá værum við á villigötum.
Sigurður H. Pálsson
23/1 2007
Meira af því sama. Nú var tekist á við seinnipartinn og sjálfan endinn.
Gratuitous violence. Gotta love it!
Sigurður H. Pálsson
22/1 2007
Þar sem þessi færsla fyrir 22/1 er í raun rituð 26/1 er fólk eflaust farið að halda að það sé bara ekkert verið að æfa þessi Epli.
Því fer fjarri.
Það gleymist bara að skipa fólki að blogga. Þetta kann að tengjast því að einhverju leyti að það er enn frekar fátítt að leikhópurinn sé allur á svæðinu á sama tíma. Það er frekar leiðinlegt, en það er líka það eina sem er leiðinlegt við þetta allt saman.
Vinnan heldur áfram, átakalítið en afar markvisst. Sena eftir senu er tekin fyrir, lesin, stúderuð, löbbuð og prófuð. Afstaða og mótívasjón hverrar persónu fyrir hverri innkomu, repliku og gjörð er skilgreind. Þetta er vinnuaðferð sem hefur ekki verið notuð við neina þeirra leiksýninga sem undirritaður hefur komið að í seinni tíð. Mig rámar samt í að svipað hafi komið fyrir í einhverju sem ég tók þátt í á níunda áratug síðustu aldar. Á hinn bóginn held ég að þessi aðferð henti þessu leikriti afar vel. Þar að auki er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.
Sigurður H. Pálsson
21/1 2007
Meira af því sama, bara önnur atriði. Ég hef sterkan grun um að þessi afslappaða, yfirvegaða og skemmtilega vinna eigi eftir að skila sér margfalt um leið og við förum út á gólf. Sem ég held að sé alveg að fara að gerast. Og get ekki beðið. Alls ekki.
Og við vitum ekki enn hvað þetta heilkenni heitir sem Rakel virðist vera haldin, svo og einn karakter í þætti af "My name is Earl"...
Sigurður H. Pálsson
19/1 2007
Þetta er smá bakfærsla, skrifað einum tveimur dögum síðar. Það hefur víst gleymst að úthluta bloggdögum.
Við erum núna að fara í gegnum atriði eftir atriði, analýsera smá og klippa/laga texta þá sjaldan með þarf. Þetta er skemmtilegra en það hljómar, líklega vegna þess að textinn er svo skemmtilegur.
Sigurður H. Pálsson
17/1 2007
Jæja þá var fyrsti samlestur leikhópsins í kvöld. Við höfðum á honum mikið gaman og fengum að heyra þau lög sem tilbúin eru. Það er skemmst frá því að segja að það er útlit að æfingatímabilið verði hið allra skemmtilegasta og er hópurinn vel stemmdur og að sjálfsögðu frábær. Gott ef ég er ekki strax byrjaður að hlakka til að hitta liðið næst en meira af því seinna góða nótt öll sömul.
Hjalti Stefán Kristjánsson