Sagnasafn Hugleiks

Memento í Þórshöfn

Memento mori á NEATA-hátíðinni 2006 í Þórshöfn í Færeyjum.

Um sýninguna: Memento mori

Elsta efst

7/8  6/8  5/8  4/8  3/8  2/8 

7/8 2006

Memento Mori blogg (kjak) frá færeyjum - Gísli
10:00 Við byrjuðum daginn á því að fara á svokallað "Theater marketplace".
Það var staðsett í Assembly Hall í Læraraskúli og þar voru mættir ýmsir frá flestum hópunum.
Theater marketplace snýst um að koma hópunum saman svo þeir geti rabbað saman og fengið nýjar hugmyndir. Okkur var skipt í hópa og við látin gera brainstorm (hugarflug?) um hvað væri hægt að gera næst hjá NEATA. Fyrsti hópurinn minn var ég og Thomas Hauger en dóttir hans stýrði theater marketplace. Þetta var gert aftur og að lokum fengu nokkrir aðilar möguleika á því að ræða hugmyndirnar sem komið höfðu fram. Að því loknu var minglað, meðlimir úr hópunum ræddu við aðra úr hópunum um hugsanlegt samstarf og þess háttar.
Þegar theater marketplace var slitið þá fór ég, Huld, Júlía og Helgi Róbert í sund.
Jögvan var svo indæll að skutla okkur og í þetta skiptið mundum við Huld eftir að panta tíma í Gosbaði.
Helgi Róbert tönnglaðist á: "Nei, það kviknar bara ekkert hjá mér ennþá" en hann hafði komið í þessa laug fyrir 22 árum síðan.
Við syntum aðeins og ég og Helgi prófuðum síðan stökkpallana; eins metra, þriggja metra og að lokum fimm metra stökkpallinn. Geðveikt fjör en það tók líka alveg heila eilífð að lenda í vatninu af fimm metra pallinum.
Gosbaðið - Færeyskan er nú ekki alveg eins og íslenskan. Gosbað er semsagt heitur pottur með loftnuddi. Við borguðum sérstaklega í það og fengum herbergi með nuddpotti út af fyrir okkur, aðeins öðruvísi en seinast þegar ég og Huld ruddumst inn á einhvern færeyjing og settumst í pottinn hjá honum, við vissum það ekki fyrr en seinna að hann var búinn að borga fyrir tímann.
Vespuævintýrið
Að loknu sundinu fórum við í Café Jinx og fengum okkur brunch með fleiri úr hópnum. Þegar inn var komið og við vorum búin að panta þá fór vespa að bögga okkur. Að lokum kom Bjössi Thor til bjargar og náði henni í glas og setti hana útfyrir. Huld fór síðan útfyrir og þegar hún kom inn aftur þá sagði hún að líklega hefði hún hleypt vespunni inn aftur. Ég sá nú samt vespuna ekki og gleymdi henni alveg. Síðan fann ég að mig kitlaði í vinstri handleggnum (ég var í stuttermabol) og klóraði mér sísvona utan á bolnum, finn ég þá ekki einhvern andskotans hnúð undir bolnum og fékk algjört sjokk og nuddaði mjög fast og kreisti hnúðinn. Dustaði ég síðan úr erminni og féll þá ekki á gólfið helv.. vespan. Á þessum tímapunkti var ég farinn að svitna og hjartað barðist ótt og títt. Sem betur fer var þetta ekki mjög gáfuð vespa og hún stakk eitthvað annað en mig, en ég hélt að það myndi líða yfir Steina og hann þurfti alveg að setja sokkana yfir buxnaskálmirnar og renna upp jakkanum svo hann fengi ekki heimsókn frá vespum líka.
Leitin að Rumpubókinni
Frá Jinx lá leiðin beint í Bókabúð Hjálmars H. Jacobsen þar sem leitað var dauðaleit að Rumpubók (sumir höva pinkulítinn rumpustump). Hún fannst því miður ekki og fengum við að vita að líklega væri hún uppseld í Færeyjum og eina bókabúðin sem eftir var, var í SMS (Færeyska Kringlan). Við höfðum því miður ekki tíma til að fara þangað heldur þurftum við að fara upp í læraraskúla fyrir opnar umræður um sýninguna okkar og Litháanna.
Huldarleiðin
Huld leiddi hópinn upp í læraraskúla og sagði að hún ætlaði að sýna okkur nýja leið upp í skóla. Leiðin liggur semsagt uppeftir í átt að pýramídakirkjunni en áður en að henni er komið þá er beygt til vinstri og farið götuna Handan Á. Það skemmtilega við þessa leið er að hún liggur framhjá túni þar sem eru nokkrar kindur í girðingu og með "varðhund" þar fyrir framan en varðhundurinn er hrútur með klippt horn, og hann var alveg sérlega gæfur.
Open Forum
Gagnrýnendur voru: Morten Hovman frá Danmörku og Vár Berghamar Jacobsen frá Færeyjum.
Byrjað var á Litháensku sýningunni og Morten sagðist hafa verið mjög imponeraður af henni. Lýsti hann hrifningu sinni á leikmynd, leik og fleira.
Jonas, leikstjóri og aðalleikari sýningarinnar sagði aðeins frá tilurð sýningarinnar en hún er um Litháenska ljóðskáldið Andrius Vistelis - Visteliauskas sem var uppi á 19 öld og endaði lífið í geðsjúkrahúsi í Argentínu eftir að hafa hrakist um hnöttinn fyrir skoðanir sínar, ástinni á móðurmálinu.
Vár lýsti hrifningu sinni á sýningunni, leikmyndinni (stál allt í kring en organískur hlutur, viðarkassi, í miðjunni) og hrósaði senunni með eiginkonunni, sagðist hafa verið imponeruð af henni, ég get nú ekki verið alveg sammála því, sýningin var góð en dúandi eiginkonan með reverb röddina var ekki alveg að gera sig fyrir mig.
Hörður ræddi aðeins um vinnustofuna hjá Litháunum sem fáir mættu á. Júlía tók einnig til máls og hrósaði sýningunni og sagði m.a. að aðalleikarinn hefði verið rólegur hvað svo sem gekk á - eins og Ghandi.
Næst var farið í gagnrýni á Memento Mori og var þó nokkru lofi hlaðið á hana.
Vár tók fyrst til máls og nefndi m.a. sterka byrjun og endirinn þegar tvö voru eftir.
Morten sagðist hafa farið heim til að líta í orðabók til að finna orð til að lýsa hrifningu sinni. Síðan fór hann nokkrum fögrum orðum um sýninguna og þá sem að henni stóðu. Því næst spurði hann hvort komið hefði upp hugmynd um að taka eitthvað út úr leikritinu.
Ágústa sagði að það hefi mikið verið skorið út í hugmynda ferlinu og sendi boltann á Hrefnu.
Hrefna sagði að henni hefði dottið í hug að skera út talið en ekki gert það.
Jögvan, fararstjórinn okkar, sagði að hann væri hamingjusamastur þarna inni, af því að hann hefði fengið tækifæri til að sjá sýninguna þrisvar.
Josefina Olsson, sænska leikkonan sagðist elska íslenskuna, hún væri göldrum líkust, það hefði verið málið sem talað var í Hringadrottinssögu. Hún sagði þó að það hefði verið erfitt þegar loka textasenurnar byrjuðu þar sem það hefði verið augnablikið þegar allt loft í leikhúsinu kláraðist og hitinn varð óbærilegur (það var reyndar í byrjun sýningar í mínu tilviki). Hún sagði að þetta hefði verið besta sýning sem hún hefði séð í mörg ár.
Danuti sagðist hafa komið á Leiklistarhátíð BÍL í fyrra og allar sýningarnar þar hefðu verið frábærar - Geta allir leikið, sungið og dansað á Íslandi?
Vár endaði open forum á því að summa upp allar sýningarnar sem búið var að sýna.
15:45 tókum við rútu upp í Norræna hús. Bjössi E. sagði okkur frá því að grúppíurnar þrjár hefðu látið breyta flugmiðunum til að geta verið með okkur á lokakvöldinu. Það hefði einungis kostað 16 þúsund krónur hver.
16:00 - 17:00 Við horfðum á Lettnesku sýninguna Karols (Carol)
Tekið úr leikskrá:
It is the room of a doctor - an oculist. A really nice and sunny morning - promising a wonderful day. The first patients arrive already before the working hours have started. They are a grandfather and granddaughter. Grandfather has lost the acuteness of vision during reconnaissance.
Therefore he needs glasses to recognize Carol, and afterwards to shoot on him. But the grandfather cannot read and that rises the problem to test his vision
Fortunately grandfather can use the doctor's glasses and the "hunting" of Carol is starting .......
Að lesa þessa lýsingu þá hélt ég að þetta væri stúlkan Carol sem fólkið væri að leita að en það var semsagt enska orðið carol - sálmur.
Annað við sýninguna var álíka óskiljanlegt, ég ætla ekki að fara út í smáatriði en mér líkaði ekkert rosalega mikið við þessa sýningu nema kannski við risaköngulóna og "hrátt egg á saurbeði" (Sigurður H. Pálsson).
Eftir Lettnesku sýninguna fórum við beint upp í sjónleikarahús, sem er við endann á Sjúrðargötu, við þurftum að bíða aðeins fyrir utan og fórum við því í Hacky-Sack og leyfðum styttunni af Hans Andreas Djurhuus að spila smá með, hann var svolítið stífur fyrst.
Síðan vorum við kölluð inn og við tók frábær sýning hjá Havnari sjónleikarafélagi - Hörpuríma.
Hópurinn var leiddur í gegnum nokkur rými þar sem leiknar voru senur úr leikritinu. Persónur í leikritinu eru annaðhvort talandi eða hljóðfæri (Uml. helvitin av persónunum í leikinum eru ljóðföri, t.v.s. sjónleikarar, ið nýta ljóðföri at samskita við - ella kannska er tað ljóðförini sum nýta sjónleikararnir at ilustrera við...)
Það væri mjög spennandi að fá þessa sýningu hér til Íslands, þetta væri ein besta landkynning fyrir Færeyjar sem þeir gætu fengið.
Leitin að sveitta hamborgaranum
Eftir færeysku sýninguna vorum við mjög glöð en ákaflega svöng þannig að nokkur okkar fóru niður í bæ til að finna eitthvað í gogginn af því að það var örugglega þrír tímar í matinn í lokakvöldinu.
Þessi einfaldi labbitúr sem hefði átt að taka innan við hálftíma breyttist í píslargöngu þar sem mig var farið að svima af hungri. Allar tillögur að matstað voru skotnar í kaf og haldið var áfram leitinni að hinum fullkomlega sveitta hamborgara. Sumir staðir voru lokaðir, aðrir voru með langa biðröð og restin var ekki með hamborgara á matseðlinum. Við enduðum á því að kaupa örbylgjuhamborgara í fyrstu sjoppunni sem við löbbuðum framhjá í hamborgarahelförinni. Mikið rosalega var það góður hamborgari.
Lokakvöldið
Við löbbuðum Huldarleiðina upp að læraraskúla og stoppuðum við hjá varðhrútnum til að klappa honum. Addi reyndi að gefa honum gras að borða en gerði þau klaufalegu rookie mistök að reyta gras rétt hjá hrútnum. Ég kom síðan eins og Dagfinnur dýralæknir með gras sem hrúturinn hafði ekki náð í og át hann úr lófa mér, fuglarnir sungu og sólin braust fram úr skýjunum..."The hills are alive, with the sound of music"....
Allavega, við fórum upp í Föroyja fólkaháskúli og beint í sturtu (ekki saman) og síðan skellti maður sér í suitarann og inn í setustofuna okkar Helga (löng saga), sötruðum einn, tvo bjóra og síðan upp í matsal fyrir lokakvöldið.
Okkur tókst að nappa lengsta borðinu þ.a. við gátum setið öll saman.
Færeyingarnir báru á borð dýrindis krásar, fínn matur eins og alla hina dagana.
Undir borðum (ekki undir borði) voru haldnar þakkarræður og ég og Siggi fórum upp sem formenn okkar leikfélaga, ásamt Vilborgu og Guðrúni Höllu. Vilborg kynnti framkvæmdastjórana og formennina ásamt mér (Very Important Person), Guðrún Halla var fljót að leiðrétta Vilborgu og segja henni að ég væri nú orðinn formaður LK og ég hélt að Vilborg myndi sökkva niður í gólfið.
Vilborg og Halla héldu síðan smá þakkarræðu og gáfu Hilmari, formanni Færeysku leikfélaganna, gjafakort (gávukort).
Siggi og ég héldum síðan smá þakkarræðu (ég tafsaði út í eitt) og gáfum Hilmari íslenskt glerlistaverk, platta með mynd af Heklu.
Allar þjóðirnar báðu sér hljóðs, ekki voru allar með þakkarræður, m.a. spiluðu Færeyingarnir smá lúðrakonsert og Eistarnir sungu.
Síðan fór íslenski hópurinn út og söng fyrir Jögvan Edda, fararstjórann okkar lagið "Sofðu unga ástin mín" (sumir voru efins um að það væri við hæfi). Síðan var grubbeknús og við gáfum Edda brennvínsstaup og brennivínssnapsflösku.
Ég, Siggi og Júlía eyddum síðan lunganu úr kvöldinu við að gefa ýmsum gjafir og skiptast á tengiupplýsingum.
Kvöldið var mjög skemmtilegt, mikið var dansað, sungið og rabbað. Sumir fóru lítið að sofa, aðrir eiginlega ekkert.

Gísli Björn Heimisson

Athugasemdir: 3

6/8 2006

Skoðunarferð

Á sunnudag var sýningalaus dagur. En hann var skemmtilegur engu að síður. Klukkan 11 um morguninn var “workshop” timi. Ágústa var með klukkutíma “workshop” um vinnuaðferðir sem við notuðum meðal annars i upphitunum fyrir Memento Mori. Um 30 manns mættu í íþróttasalinn i Læraraskolanum. Þetta var mjög skemmtilegur klukkutimi sem við áttum saman og lékum okkur i síld, zipp, zap, bong og ömmunni. Ágústa fór á kostum.Eftir hádegismatinn söfnuðust allir i tvær rútur og farið var með okkur i “sightseeing” túr. Við ókum i norður meðfram sundinu sem aðskilur Straumey og Austurey og fórum svo yfir lengstu brú sem til er yfir Atlandshafið (!) en hún er um það bil 100 metrar og liggur milli þessara tveggja eyja. Á Austurey ókum við suður á bóginn áleiðis til Götu þaðan sem Eyvor Pálsdóttir kemur.Þar er nýjasta kirkjan þeirra Færeyinga sem þeir eru mjög stoltir af. Hún er líka mjög falleg og listaverkin innan dyra sömuleiðis. Ég var lika stolt þegar tonlistarsnillingurinn okkar hann Bjössi Thor settist við flygilinn i kirkjunni og spilaði preludiu í c dúr eftir Bach eins og engill af himnum ofan.

Frá Götu ókum við aftur í norður yfir fjöll og fyrnindi. Beygjurnar voru svo skarpar og svo bratt niður að Gísli Björn, eða Grísli Björn eins og stendur á Neatapassanum hans, var pottþéttur á að þarna hefðu James Bond myndirnar verið teknar. En ég held ekki :) Leiðin lá að hinu fallega sjávarþorpi Gjógv á norðurströnd Austureyjar. Þar fengum við kaffi og ljúffengar Færeyskar pönnukökur með bláberjasultu og rjóma. Við gengum síðan niður í bátalægið sem var i djúpri geil í klettunum. Þangað niður var ansi bratt, 63 þrep. Einhverjir tóku sig til og dönsuðu Færeyskan dans niðri á bakkanum.Ég var því miður of sein að ná því á videó en Hörður var sneggri. Íslenskt videolistaverk var þarna í litlum kofa sempartur af sýningu. Annars eru listaverk alls staðar því Færeyingar eru duglegir að skreyta í kringum sig og húsunum virðist mjög vel við haldið almennt. Í fjörunni þarna voru skemmtilegar steinmyndanir eða einskonar stuðlaberg sem lá á hlið og sagan segir að það séu tröppur sem liggi upp og niður fjöllin og undir sjóinn og alla leið til Íslands.

Frá Gjógv ókum við aðeins lengra norður þar sem stórir klettadrangar liggja úti í sjó undan klettóttri strönd. Sagan segir að Íslendingar hafi viljað bæta Færeyjum við Ísland og sent tvö tröll til að draga Færeyjar norður hafið. En þau höfðu ekki fyrr brugðið vaði yfir klettatoppinn en sólin kom upp og þau urðu að steini. Við Íslendingarnir urðum svo snortin yfir þessari sögu að við röðuðum okkur upp í kór og sungum “Ísland ögrum skorið” fyrir tröllin með íslenska fánann blaktandi í vindinum. Þá tóku Færeyingar við sér og sungu líka ættjarðarsöng fyrir tröllin og Danirnir vildu ekki vera minni menn og sungu líka. Þetta varð allt mjög hátíðlegt. Siðan var haldið heim í kotið og hámaður í sig gómsætur kvöldmatur að venju. Kokkarnir hér á hátíðinni eru mjög fínir. Mikið af hvítlauk og góðeríi. Í festivalklúbbinn mættu svo mátulega útlifaðir Danir og spiluðu frábæran blús sem fór afar vel með rauðvíninu og bjórnum. Ég held ég hafi sofnað áður en höfuðið snerti koddann um hálftvöleitið. En þá var nóttin rétt að byrja hjá öðrum.

Sýningin okkar hefur vakið þvílíka lukku hér að Lettland vill fá okkur á ”modern theater festival” í október á næsta ári. Eistland og Litháen vilja ólm fá okkur til sín líka og bara búa til festival í kringum það ef þarf og síðast en ekki síst Norðmenn, sem voru með frábæra sýningu hér sjálfir (Já, þetta er satt!) ætla að tala við yfirvaldið heima hjá sér og sjá til þess að okkur verði boðið á “Pro teater festival” í Noregi í maí næstkomandi (held að tímasetningin sé rétt hjá mér). Það er professional hátíð þar sem einni eða tveimur amatör sýningum er boðið að vera með. Eistland gaf mér disk með sýningunni þeirra sem var mjög skemmtileg og öðruvísi. Nú þarf bara að plana myndakvöld þegar við komum heim!

Júlía Hannam

Athugasemdir: 3

5/8 2006

Aðaldagurinn!!!! dagurinn byrjaði frekar snemma með morgunmati að hætti hússins að vanda....mæting klukkan tíu í leikfimissalinn í byggingunni sem við gistum í....lítill og frekar þreyttur, gamall krúttaralegur salur ;)

Mjög nauðsynlegt textarennsli takk fyrir!!! Búið að vera svo mikið prógram að það var algjörlega þörf á að pikka upp smá tempó og hreinsa textann aðeins upp, sem gekk bara assskoti vel :)

Hádegismatur...nammi namm...hann er alveg að fá þó nokkra plúsa þessi kokkur...mjög góður matur hjá honum og hann er sko alls ekki að spara hvítlaukinn...hvítlaukur í öllu...hehee.

Eftir hádegismat var frjáls tími...það var mjög misjafnt hvað fólk vildi gera af sér...sumir skelltu sér í sund til að ná í orku fyrir kvöldið aðrir lögðu sig...einhverjir kíktu í bæinn að versla... mjög fínt að fá smá frítíma fyrir prógram kvöldsins :)

Það voru svo opnar umræður um eistnesku, dönsku og norsku sýningarnar klukkan tvö...sem þeir mættu á sem vildu.

Mæting klukkan korter í fimm í rútur til að fara að sjá sýninguna hjá Litháen í Norræna húsinu þeirra Færeyinga.

Strax eftir sýninguna var hoppað út í bíl sem okkar kontactgaur var búinn að redda fyrir okkur og beint niður á Þjóðarpall þar sem við áttum að sýna. Við tókum netta upphitun og svo skelltum við okkur í tæknirennsli. Edda, kontaktgaurinn okkar, var búinn að redda okkur rosa flottum samlokum sem við fengum að borða eftir rennslið....sem var alveg brilljant þar sem liðið var orðið frekar hungrað. Styttist og styttist í sýningu...smink..hár..búningar og allt að gerast....allt á fullu og liðið orðið vel spennt. Úffff það var rosa heitt í salnum á meðan sýningin var hehee...maður var farinn að halda að fólk myndi hlaupa út strax eftir sýninguna til að fá sér frískt loft....en heldur betur ekki, við fengum alveg rosalega góð viðbrögð....fólk bara spratt á fætur og var bara að missa sig í klappi og látum....ég hef bara aldrei lent í öðru eins, alveg hrikalega gaman að fá svona viðbrögð....en sýningin gekk semsagt rosalega vel :). Svo var drifið í að skipta um föt og skálað í kampavíni og skálað aftur og aftur og aftur :).

Þegar við komum svo í festivalklúbbinn var okkur fagnað ennþá meira, :) hrikalega gaman....við öll líka svo glöð og sátt við sýninguna.

Bjór hefur sjaldan bragðast betur...maður var orðinn svo hrikalega þyrstur eftir sýninguna...enda var ekki eðlilegt hvað var heitt þarna inni. Litháen og Svíþjóð voru með skemmtiatriði kvöldsins...það var sungið...dansað....og við fengum að smakka bæði mat og snafsa frá Litháen....mjög gott....einn snafsinn hrikalega sterkur....reif alveg niðrí rumpu ;). Svo var dansaður færeyski dansinn og sungið...við rétt pikkuðum upp smá ”millierindi” sem við gátum raulað með á okkar rosa góðu færeysku sem verður betri og betri með hverjum deginum sem líður :). Djammið hélt svo áfram þar til fólk gat engan veginn meira :) :) :) en við þurftum samt að hafa í huga að missa okkur ekki alveg í gleðinni því að okkar workshop var klukkan ellefu daginn eftir.

Knús og kossar heim.......grúppíurnar okkar þeir Steini, Gummi og Bjössi biðja að heilsa :).

Bylgja Ægisdóttir

Athugasemdir: 2

4/8 2006

Dagurinn byrjaði missnemma, að nokkru leyti en ekki öllu í samræmi við það hve lengi menn höfðu verið úti daginn áður. Einhverjir könnuðu workshop-úrvalið, en eins og við mátti búast var það heldur fátæklegt: Það gleymdist víst að segja hópunum að ætlast væri til þess að þeir og leikstjórar þeirra stæðu fyrir vinnusjoppu.

Hádegisverðurinn var jafnríkulegur og að vanda og að honum loknum var haldið á opið umræðutorg - s.s. krítíkfund - þar sem fjallað var um þrjár fyrstu sýningar hátíðarinnar. Krítíkerarnir eru þrír talsins, tveir innfæddir og einn Dani. Sá síðastnefndi var nokkuð skörulegur, hinir þóttu hafa heldur lítið til málanna að leggja.

Aðeins ein sýning var í boði þennan dag, frá Eistlandi. Tvær aðrar sýningar voru á upphaflega planinu, frá Grænlandi og Hvítarússlandi, en hvorugur hópurinn er hér, sá fyrri vegna fjárskorts en sá seinni vegna áritunarskorts. Eistneska sýningin var dansleikhús með lifandi tónlist, tveir dansleikarar og ellefu hljóðfæraleikarar. Mjög vel gert og margt um skemmtileg móment, ekki síst í samleik dansleikaranna og hljóðfæraleikaranna. Ekki er samt víst að allir hafi áttað sig nákvæmlega á þeim pælingum um „soul and soulness“ sem samkvæmt leikskrá lágu þarna að baki.

Það var almenn ánægja með það að Eistarnir voru svo gott sem leikmyndarlausir, þannig að tæknikrúið okkar gat rokið strax til sinna starfa. Eftir kvöldmat var svo kýlt á rennsli. Kannski ekki alveg nógu smurt, en við höfum fulla trú á að smurningin komi á morgun. Þá stendur til að taka textarennsli og kannski rúmlega það um morguninn. Það sem helst veldur áhyggjum er að Jógvan (eða Edda, eins og hann er gjarnan kallaður), tengiliðurinn okkar, sem fylgdist með rennslinu, mun hafa gengið beint í það að lofa okkur í hástert í eyru allra sem heyra vildu og vekja þar með væntingar sem erfitt gæti verið að standa undir - sérstaklega að teknu tilliti til þess að standardinn á sýningunum hingað til hefur verið með hæsta móti.

Þeir sem ekki fóru beint í rúmið litu við á hátíðarklúbbnum í nightcap. Þar var dans og fjör, sem við létum að mestu eiga sig. Erum viss um að ná góðum nætursvefni eftir strangan dag.

Sigurður H. Pálsson

Athugasemdir: 2

3/8 2006

Ágætis byrjun

Fyrsti heili dagurinn að baki og ekki annað hægt en að vera glaður yfir afrakstri hans. Eftir morgunmat voru námskeið og fyrirlestrar af ýmsu tagi. Nokkur hluti íslenska hópsins fór á danstjáningarnámskeið sem látið var vel af en aðrir hlýddu á leikstjóra færeysks leikhóps sem við eigum enn eftir að sjá. Sá var nokkuð þungur á brún í byrjun því hann hafði ekki græna glóru um að auglýst hefði verið námskeið hjá honum heldur ætlaði aðeins að eiga létt spjall við fólk um sýninguna. Sá er þetta ritar hafði reyndar öðrum hnöppum að hneppa því morguninn fór í leit að nettengingu sem nokkrir Færeyingar höfðu svarið á gröf ömmu sinnar að væri hvergi að finna í grenndinni en var svo auðvitað í 20 metra fjarlægð frá skrifstofu hátíðarinnar. Einnig var ekið með Jógvan leiðsögumanni okkar í sandsöluna þar sem nokkrum kílóum af ljósum sandi var nappað til að nota í sýningunni okkar á laugardag.

Eftir hádegismat var haldið af stað í ógurlega skrúðgöngu niður í miðbæ. Skrýdd höttum og íslenskum fánum gengum við á eftir líflegri lúðrahljómsveit og eldgleypum í sannkölluðu þjóðhátíðarskapi. Heimamenn kunnu greinilega vel að meta framtakið og fylgdust með af áhuga. Skrúðgangan lauk för sinni á litlu torgi þar sem sýnd voru nokkur atriði. Þar á meðal söng íslenski hópurinn Bandalagssönginn auk þess sem Litháarnir rændu tveimur úr hópnum til að dansa með sér í þeirra atriði. Þá sungu allir færeyskt lag sem okkur hafði verið kennt og í lokin slepptu allir blöðrum sem svifu tignarlega yfir Þórshöfn.

Eftir stuttan stans á Café Natúr var komið að fyrstu sýningu dagsins sem Norðmenn fluttu. Væntingar voru blendnar hjá þeim sem upplifað norskar leiksýningar á hátíðum sem þessari en skemmst er frá að segja að Norsarinn kom okkur algerlega í opna skjöldu með stórskemmtilegri sýningu. Tveir leikarar sýndu stórgóða takta í hlutverki manna sem bíða refsingar í fangaklefa. Þeir stytta sér stundir með leikjum af ýmsu tagi og voru sumir þeirra algerlega frábærir. Sérstaklega var skákin sem þeir tefldu á afar óvenjulegu taflborðinu með einum hvítum riddara í yfirstærð ekkert nema tær snilld. Minnið úr Guðföðurnum sem brá fyrir var t.d. sérlega eftirminnilegt. Í það heila bráðskemmtileg sýning. Heja Norge!

Strax á eftir var röðin komin að Svíum og þó væntingarnar væru öllu meiri fyrir sýningu þeirra stóðu þeir fyllilega undir þeim. Látlaust drama um samband tveggja systra þar sem önnur hengir sig á hina meðan sú gerir ítrekaðar tilraunir til að komast burt. Látin móðir þeirra birtist einnig í afturhvarfi og brá ljósi á söguna. Afar sterkur leikur og skýr og vel hugsuð leikstjórn í eftirminnilegri sýningu.

Eftir kvöldmat var haldið í Norræna húsið þar sem Danir voru með síðustu sýningu dagsins. Skemmst er frá því að segja að Danir gerðu hér enn eina tilraunina til að drepa okkur úr leiðindum en þeim má þó segja til hróss að þeir hafa reyndar oft lagt sig meira fram í þeim tilgangi en nú. Níutíu mínútna dönsk heimsendaorgía sem náði einstaka sinnum að lifna en allt of sjaldan til að halda lífi í áhorfendum. Langar og ónauðsynlegar myrkvanir bættu auk þess ekki úr skák. Leikhópurinn var ungur og óreyndur að sjá en inn á milli voru þó ágætir kraftar.

Eftir þá dönsku var brunað niður í hátíðaklúbbinn þar sem við riðum á vaðið með skemmtiatriði. Flutt voru nokkur lög af kór sem stækkaði með hverju lagi og lauk á því að allur íslenski hópurinn söng Bandalagið. Framlag okkar virðist greinilega hafa náð til annarra hátíðargesta sem klöppuðu og stöppuðu með í lokin og þökkuðu fyrir sig eftir á með hástemmdum lýsingarorðum. Löngum degi var nú lokið hjá flestum en sumir voru upp við eitthvað lengur en ekki verður frekar frá því sagt hér.

Hörður Sigurðarson

Athugasemdir: 4

2/8 2006

Kl. 6 að morgni var mættur samstilltur hópur Leikfélags Kópavogs og Hugleiks fólks á The International Airport í Vatnsmýrinni á leið til Færeyja á fjórðu NEATA hátíðina sem haldin er að þessu sinni í Þórshöfn í Færeyjum. Skemmtum okkur vel við lestur á Dimmalætting í flugvélinni og vorum lent í Vágar fyrr en varir. Flestir fengu sér danskar krónur í sjálftökunni á flugvellinum og eftir nokkur göng undir haf og lönd komum við til Þórshafnar. Hjálparinn okkar er gubbinn Jógvan E. Ósá sem hefur komið oft til Íslands og lék m.a. prestinn í kvikmyndinni Dansinum eftir Ágúst Guðmundsson.

Í miðstöð hátíðarinnar í Föroya Læraraskúli fengum við neongræna hátíðarboli, tilsniðnar upplýsingar og tilfæringar ýmsar við að raða öllum í kamra. Ljómandi aðbúnaður. Og góður matur!

Hópurinn skoðaði Tjóðpallinn þar sem við munum spæla Memento Mori næstkomandi laugardagskvöld. Teljum að vel muni fara um sýninguna í þessu nýja Þjóðleikhúsi Færeyinga. Lukum við að skipuleggja allt sem hægt var og þurfti og litum í kringum okkur í bænum. Við munum skemmta í hátíðarklúbbi hátíðarinnar annað kvöld og því brast á með ströngum söngæfingum. Okkur fannst gaman – veit ekki hvað verður með hina. Eftir kvöldmat komu svo bössarnir til að flytja okkur á opnunarhátíð í Norðurlandahúsinu. Og já – við kunnum nægilega dönsku til að hafa óskaplega gaman að því að ferðast með bössunum – þetta verður þemabrandari hátíðarinnar! Svo má alltaf taka sér hýruvogn til að komast á milli.

Opnunarhátíðin fór vel fram – stuttar og góðar ræður og ljómandi skemmtileg unglingasýning hjá Dramaverkstaðinu hennar Hjördísar Johansen sem margir kannast við því hún fékk leiklistarlegt uppeldi í Svarfaðardalunum á fyrstu árum skólans. Að lokinni glæsilegri móttöku í Norðurlandahúsinu lauk deginum í hátíðarklúbbnum eða hér og þar…

Hrefna Friðriksdóttir

Athugasemdir: 3