Sagnasafn Hugleiks

Þrjár systur og hjúkrunarfræðingur

Af æfingum á leikritinu "Systrum".

Um sýninguna: Systur

Nýjasta efst

28/2  8/3  12/3  15/3  17/3  18/3  22/3  26/3  28/3  31/3  2/4  2/4  4/4  8/4  9/4  11/4  12/4  18/4  22/4  26/4 

28/2 2006

Systur nefnist leikrit eitt sem Þórunn nokkur Guðmundsdóttir hefur skrifað. Verk þetta varð fyrir valinu þegar stjórn fékk að grafa í handritabúnka hugleikshöfunda fyrir áramót í leit að hentugu vorverkefni. Og ég fékk það verkefni að leikstýra. Heppinn.

Í hlutverkin völdust stólpaleikkonur: Hulda, Júlía, Indra og Jonna. Hljóðfæraleik annast Júlía.

Og við erum byrjuð.

Og það er skemmtilegt í okkar bekk.

Gott leikrit...

Gott í bili

Þorgeir Tryggvason

Athugasemdir: 2

8/3 2006

Þetta er auðvitað dálítið hallærislegt - altsvo að ekkert heyrist af æfingum. En þó lítið rambi hér inná færslur þá er allt að gerast á æfingum - og heima - og í kaffitímum - og í rútunni yfir Hellisheiðina - og í draumum manns - já öllum stundum er maður að þylja texta og koma honum fyrir á heilasellunum.
Erum komin langleiðina að leggja senurnar og í kvöld var þar komið sögu hvar ljóstrað er upp um dagbókarskrif Nönnu (alter ego mitt þessar vikurnar)....það var eiginlega þá sem ég mundi eftir þessari dagbók. Og lesandi góður, vertu feginn að ég er ekki föst í hlutverkinu því dagbók Nönnu er ekkert sunnudagslamb með sultu...

Hulda B. Hákonardóttir

Athugasemdir: 1

12/3 2006

Höfundurinn mætti á æfingu í dag og varð vonandi ekki skúffuð þó þetta væri frekar höktandi allt saman. Bæði var nú að textinn var að þvælast í okkur auk þess sem verið var að gera smá breytingar á handritinu þar sem upp kemur gamla fjölskyldutraumað sem þær systur hafa geymt með sér hver í sínu skoti. Þessar systur hafa kannski komist til Moskvu, en þær hafa ekki komist frá ömurlegri bernsku sinni.
Mér finnst þetta ferlega vel skrifað leikrit hjá Dr. Tótu.

Hulda B. Hákonardóttir

Athugasemdir: 1

15/3 2006

Íris búningahönnuður mætti á æfinguna í kvöld og eftir nákvæmar lýsingar á fatasmekk okkar systra renndum við x2 í upphafssenurnar sem gekk alveg þokkalega.
Ég treysti því auðvitað að ég fái að vera fögur á sviði, það er yfirleitt það eina sem ég krefst af útlítshönnuðum - að gera mig sæta...og Íris er flink.

Hulda B. Hákonardóttir

Athugasemdir: 2

17/3 2006

Jahá, fynd sagði einhver.
Það var nú alveg fyndið þegar Toggi skellti 12 strengja gítar í hendurnar á mér í fyrradag og ég spilaði ótrauð á hann þótt ég kynni ekkert. Auðvitað hljómaði það agalega en við, allavega ég, skemmti mér alveg konunglega á þeirri æfingu. Í gær fengum við Indra að púsla allt kvöldið. Bara gaman. Hulda var reyndar hundleiðinleg, alltaf að reyna að skipa okkur fyrir og stjórna. Við erum bara svo latar að við nenntum engu nema gera henni gramt í geði. Heyriði, svo át hún púslið okkar! Talandi um græðgi!

Júlía Hannam

Athugasemdir: 1

18/3 2006

Það hitnar í hamsinum á okkur systrum þegar verið er að æfa aftur og aftur átakasenur eins og í dag og nú veit ég hvað vantar á Eyjarslóðina - kalda sturtu.

Hulda B. Hákonardóttir

22/3 2006

Fyrsta rennsli á öllu leikritinu í kvöld. Það gekk stóráfallalaust fyrir sig og ágætt að fá smátilfinningu fyrir taktinum í verkinu.
Næsta æfing ekki fyrr en á laugardaginn, bæði vegna þess mánaðarlega í Þlh. og svo þarf leikstjórinn að bregða sér úr bæ á föstudaginn. Púff, smá andrými til að festa textann betur.
Fyrir mig þýðir það líka að ég þarf ekki að tyggja púsl á meðan - púslbitar eru verulega ólystugir í munni.

Hulda B. Hákonardóttir

Athugasemdir: 1

26/3 2006

Aftur var tekinn upp þráður eftir rennslið í gær og í dag. Ég er ekki frá því að gegnumgangurinn hafi eflt stúlkurnar til dáða - gefið þeim innsýn í persónurnar sínar og aukið þar með sjálfstraustið. Tilviljun? Held ekki.

Held að þetta sé allt að stefna á réttar veiðilendur. Búið að klófesta PR-stúlku og Ljósadreng. Kærasta drengsins sendi mér illt augnaráð, en spúsi PR-stúlkunnar lét sér fátt um finnast. Enda hefur hún verið meira heima undanfarið en hinn umsetni ljósálfur.

Og svo rakti ég textabreytingar eftir minni fyrir hinum upptekna höfundi sem ég raxt á í kvöld. Hún var hin spakasta, enda getur hún svosum ekkert sagt, verandi aldrei til tax.

Múhahahahahahahah....

Þorgeir Tryggvason

28/3 2006

Sælinú!
Í gær var ég aðallega í því að vera vond við aumingja hjúkkuna sem skilur ekkert í þessari geðveiki og...jú ..svo drakk ég dálítið vodka......er einhver hissa??
Innri vinnsla stendur nú yfir ásamt hinni ytri....leit að kjarnanum .....og þá er voða gott að snabba sig aðeins:)
(Í alvörunni drekk ég frekar lítið sko.....næstum ekki neitt)

Júlía Hannam

Athugasemdir: 1

31/3 2006

Lokakaflinn tekinn til kostanna í gær. Bar þar helst til tíðinda að meðan verið var að disskútera stemmingstónlist fyrir bláendann að ein leikkonan hafði lítið sem ekkert heyrt í Tom Waits og á því eftir að uppgötva þann snilling fyrir alvöru.

Ekki laust við að ég öfundi hana oggupons...

Jú og svo mætti búningameistarinn með hugmyndir og ljósálfurinn dittó.

Þorgeir Tryggvason

2/4 2006

Þegar leikstjórinn fer burtu fara kjeeellingarnar á stjá. Meðan hann var sumsé útálandi plægðum við lokakaflann í gær undir næmu auga aðstoðarleikstjórans. Ég missti reyndar eina ef ekki tvær replikkur í hasarnum, en hvað...af nógu er að taka.
Í dag (sunnudag) er svo meiningin að renna öllu og svo mögulega í Möguleikhúsið á mánudag. Og það er kominn apríl. APRÍL !

Hulda B. Hákonardóttir

2/4 2006

Rennslið rann áfram - leikritið virðist hafa lengst frá síðasta tennsli, veit ekki hvort það þýðir vont eða gott. Margt virtist benda til þess að dramað væri að snúast upp í andhverfu sína í dag, það varð bara svo margt hræðilega fyndið í rennslinu að það lá við að þyrfti að kalla út hjálparsveit til að koma mér út úr einu hláturskastinu.
Hvort þetta þýðir að djúpa stöffið og allur undirtextinn hjá Tótu sé eftir allt saman snarbrjálaður farsi - eða við að verða taugaþandar hér á endasprettinum er ekki gott að segja. Ég mundi jafnvel segja að þetta sé merki um að innlifun okkar sé nokkur...

Hulda B. Hákonardóttir

Athugasemdir: 2

4/4 2006

Og svo var haldið í Möguleikhúsið í gær og þar ljómaði allt af þrifnaði og tiltekt. Stuttu seinna vorum við búin að hrúga þangað inn eins og einu dánarbúi og þegar við vorum búin að renna gegnum fyrri hlutann urðum við skyndilega þreytt og fórum heim. . . drógum teppi upp fyrir haus, kúrðum okkur niður og sofnuðum.

Hulda B. Hákonardóttir

8/4 2006

Í gær og í dag höfum við verið að fínpússa alls konar smáatriði, hjakka aftur og aftur og merkilegt nokk hefur það verið ótrúlega gaman. Svo verða rennsli næstu daga og þá ...ljósin upp!
Þar sem við höfum engann sérstakan proppsara fyrir sýninguna útbúum við það sem við á að eta eftir hendinni. Í morgun stóð ég t.d. í mikilli sultugerð við eldhúsborðið og í kvöld mun ég skrifa og myndskreyta dagbók Nönnu. . .

Hulda B. Hákonardóttir

Athugasemdir: 2

9/4 2006

Rennsli um hádegisbilið færði heim sanninn um að þetta er að verða sýning. Harla góð held ég. Endasprettinum verður varið í að snerpa, skerpa, greiða hár, venjast ljósum og panikera yfir hlutum sem við höfum hingað til gleymt. Allt eins og venjulega.

Leikskrá klár, plakat sömuleiðis. Búið að proppsa pússluspil. Og Hulda hamast við að fylla dagbók Nönnu. Mikil snilld sem verður ekki opinberuð fyrir almenningi (sem betur fer). Hamhleypan Sesselja hefst handa við kynningarmálin á morgun og mega þá fjölmiðlar landsins vara sig.

Og er maður orðinn spenntur?

Ekki spyrja eins og fávís....

Þorgeir Tryggvason

11/4 2006

Þreytta rennslið var í gær - en góðu fréttirnar eru að við höldum að þetta standi, líka þegar við leikkonurnar séum ekki alveg í topporkuformi. Hjalti kveikti á nýjum perum og dánarbúið eignaðist nýtt gamalt teppi frá Góða Hirðinum - sennilega úr öðru dánarbúi. Dagbók Nönnu hefur verið rituð, já segi og skrifa rituð því mér hefur nánast liðið eins og ritara við gerð hennar. Ekki hefði mig órað fyrir þessum heimi Nönnu þegar ég hóf ritarastörfin. Skrýtið og allt að því dularfullt...

Hulda B. Hákonardóttir

12/4 2006

Generáll með hæfilegu magni af klikkum og stressi til að setja leikhópinn á tærnar fyrir frumsýninguna. Ákjósanleg staða.

Þetta er búið að vera ansi hreint skemmtilegt ferðalag og verður gaman að verða vitni af fyrsta stefnumóti systranna við umheiminn í kvöld.

Þorgeir Tryggvason

18/4 2006

Og svo frumsýndum við daginn fyrir skírdag á fullu tungli og það gekk alveg bærilega, alla vega hröktum við á brott hnökrana sem voru að trufla okkur á generálnum. Kom reyndar á óvart hve mikið var hlegið - og þó ekki. Það örlar ennþá aðeins á því hjá mér alla vega að grát- og hláturtaugarnar rykkist til. Hélt annars að maður væri búin að klára hláturinn og grátinn á æfingatímanum. Gott leikrit.

Hulda B. Hákonardóttir

22/4 2006

Fjórða sýning á systrum var í kvöld. Kannski er ég hlutdrægur þegar kemur að samanburði á sýningunni miðað við aðrar leiksýningar. En ég er andskotakornið hlutlaus þegar um er að ræða samanburð á einstökum sýningum á systrum.

Má ég þá lýsa því yfir að sýningin í kvöld var sú besta hingaðtil. Veit ekki um íslenskt orð yfir þetta, en enska orðið "abandon" lýsir best framangi leihópsins í kvöld. Þessi stund þegar leikarararnir taka málin algerlega í sínar hendur. Eru ekkert endilega að breyta einhverju, en það er alltaf alveg ljóst að allt sem þær gera stjórnast af því sem þær VILJA gera. Ekki einhverjum fyrirmælum.

"Lífrænt" er eitt orð til að lýsa þessu.

Þetta var sumsé lífræn sýing.

Eins og dauður þröstur iðandi af hvítum möðkum.,

Æðislegt.

Þorgeir Tryggvason

26/4 2006

Og þá eru komnir dómar. Loxins loxins.

Bæði á Leiklist.is og á Gufunni.

Við erum harla stolt, ekki satt?

Þorgeir Tryggvason