Sagnasafn Hugleiks

Memento í Kóreu

Dagbók frá ferð Hugleiks og Leikfélags Kópavogs með "Memento mori" á leiklistarhátíð IATA í Masan í Suður-Kóreu

Um sýninguna: Memento mori

Elsta efst

5/8  4/8  2/8  2/8  1/8  31/7  30/7  29/7  28/7  27/7  26/7  25/7  24/7 

5/8 2007

Sunnudagsmorguninn fimmti rann upp, bjartur og fag.., hmmm nei annars, hann var ekkert svo bjartur... og ekkert svo fagur heldur, bara endalaus þoka og mistur - eða þykkt mengunarský sem virðist hanga eilíflega yfir þessari borg. En það skipti engu máli, hingað vorum við komin, í land Keisaranna, land Maós, land múrsins mikla, land ævintýranna og drekanna. Beijing. Peking. Kína. Maður þurfti aðeins að klípa sig í handlegginn - var þetta virkilega að gerast?

Og þá voru eftir átta... hópurinn farinn að þynnast aðeins, sumir farnir heim, aðrir eitthvert annað. Hér vorum við Ágústa, Bylgja, Vibba, Júlía, Helgi, Gísli, Addi og ég. Snæddum ágætis morgunverð á Harmony Hotel og spennan lá í loftinu, von var á leiðsögumanni sem ætlaði að fara með okkur að skoða Kínamúrinn. Hann skilaði sér stundvíslega við annan mann, reyndist heita Tonk(e) (sem þýðir víst "eiginkona") og þeir voru með þennan fína míníbúss, sem rúmaði okkur öll ágætlega. Um níuleytið var lagt af stað og Tonk byrjaði að fræða okkur um sögu Kína fyrr og nú, og þó það væri afar athyglisvert allt saman byrjuðu augnlokin fljótlega að síga, og undir lokin voru það bara Ágústa sem hlustaði (kannski af einskærri kurteisi) og undirritaður (kannski vegna þess að Tonk sat við hliðina á mér og virtist halda að hægra eyrað á mér væri hljóðneminn).

Eftir u.þ.b. klukkustundarakstur var stoppað við minjagripaverksmiðju nokkra, þar sem nokkrar kínakonur og -kallar sátu sveitt við að búa til listmuni úr "cloisonnier" og jaðe, við vægast sagt misjafnar aðstæður. Þetta var allt voða fróðlegt og gaman að sjá og síðan vorum við leidd eins og sauðir til slátrunar inn í risavaxna ríkisrekna minjagripa- skástrik listmunaverslun (að mati undirritaðs um 5.000 fm verslunarrými) og vorum við einu sjáanlegu viðskiptavinirnir þar. Þarna var að sjálfsögðu mikið keypt, enda kínakonurnar afar séðar í sölumennskunni, vinsælastir voru kínadrekarnir. Snæddum afar ljúffengan hádegismat, eftir að hafa sætt færis á að hlaupa yfir þjóðveginn til að komast á restórantinn. Svo var aftur hlaupið yfir veginn og aðeins meira keypt.

Það var komið vel fram yfir hádegi þegar við loksins komum að múrnum, og þar vantaði svosem ekki minjagripasalana. En við héldum aftur af okkur og stefndum ótrauð að kláfnum sem flytja skyldi okkur upp á fjallið þar sem múrinn var. Sölufólkið vissi alveg hvað klukkan sló og úr öllum áttum hljómaði "Jú komm bah! Æ límembe jú! Jú límembe mí? Jú bæ!" Það vottaði aðeins fyrir lofthræðslu hjá sumum í kláfnum á leiðinni upp, en hinir göptu af gleði og spenningi. Og maður lifandi. Hingað vorum við komin upp á Kínamúrinn mikla, eitt af undrum veraldar sem teygir sig 6.000 km frá vestri til austurs. Ólýsanleg upplifun. Þarna sprönguðum við fram og til baka og reyndum að setja okkur í spor varðmannanna sem áttu víst heldur ömurlega vist þarna, jafnt í steikjandi sumarhita sem fimbulfrosti og mannhæðardjúpum snjó. Þarna hlykkjast múrinn ofan á fjallahryggjunum, að því er virðist útí óendanleikann, en hann hvarf reyndar fljótlega útí mistrið þennan dag. Stærstur hluti hópsins ákvað að stefna á gula sólhlíf sem var rétt greinanleg í fjarskanum, og þegar þangað var loks komið beið þar kínakall sem brosti út að eyrum svo skein í báðar tennurnar og sagði "kól vote" og við glöddumst mjög. Meðan við svöluðum okkur á "kól vote" kom undursamlega fagurt fiðrildi aðvífandi og tyllti sér efst á fánastöngina með íslenska fánanum sem Addi hafði borið alla þessa leið, og við urðum svo snortin af þessu að við brustum í söng og sungum Lofsönginn eftir Matta Joch og Sveinba Sveinb, við mikla gleði viðstaddra sem voru fjórir, að kínakallinum meðtöldum. Hlutum dynjandi lófaklapp að launum, frá öllum þessum fjórum. Hátíðleg stund.

Það urðu að sjálfsögðu fagnaðarfundir þegar við komum aftur niður af fjallinu, og gleði sölufólksins var fölskvalaus þegar það sá okkur þreytt og sveitt draga upp veskin og byrja að kaupa og kaupa. Og kaupa. En Tonk var tekinn að ókyrrast mjög, og það var kannski eins gott, því það virtust engin takmörk vera fyrir kaupgetu íslensku ferðalanganna, frekar en venjulega.

Stefnan tekin aftur á Beijing og hótelið, og á heimleið kíkt aðeins inn í silkifabrikku eina mikla, og það var ekki að spyrja að því, eftir að hafa leitt okkur í allan sannleik um silkiframleiðsluna (sem er reyndar alveg ótrúlega heillandi fyrirbæri), vísuðu þeir okkur inn um dyr einar þar sem var til sölu silkivarningur af öllu hugsanlegu tagi, og spurningin var ekki sú hvort, við ætluðum að kaupa eitthvað, heldur hve mikið. Og við keyptum mikið. Mjög mikið. Silkisængur og silkisængurver, silkiteppi, silkiskyrtur, silkikjóla, silkijakka, silkinærbuxur, silkisokka... Þeir kunna þetta alveg Kínverjarnir.

Upp á hótel í mjög snöggt bað, svo Peking óperan. Höfðum pantað bestu sætin, og það var sko ekkert slor. Sátum þar eins og hefðarfólk kringum borð og úðuðum í okkur alls konar dísætu góðgæti, hnetum og ferskjum og öllu skolað niður með tei. Það var ekki mikið sungið í þessari óperu, en hún var samt mikið sjónarspil, einhverskonar sambland af látbragðsleik, dansi og fimleikum með hljóðfæraundirleik. Skemmtum okkur konunglega þar. Að því loknu brunað beint á veitingastað sem Tonk hafði fundið fyrir okkur og þar voru bornar á borð þrjár heilar Peking-endur, sem voru svosem ágætar, en hálfgerð vonbrigði fyrir flesta, ekki síst fyrir hið fátæklega meðlæti. Fréttum seinna að þetta áttu að heita bestu Peking-endur sem hægt er að fá hér í borg. Kvöddum Tonk með tárum, enda hafði hann staðið sig með mikilli prýði og átt sinn þátt í gera þennan dag svo ógleymanlegan.

Langur og viðburðaríkur dagur að kveldi kominn, og við vorum öll þreytt en sæl þegar við rúlluðum inn á hótel undir miðnættið. Einhverjir fóru beint að sofa, einhverjir settust á hótelbarinn, en fjögur okkar, Bylgja, Addi, Gísli og ég kíktum inn á nuddstofuna "Harmony Sauna" sem er við hliðina á hótelinu. Bylgja, af sinni alkunnu gjafmildi, bauð mér í fótanudd sem var æðisgengið en strákarnir tóku líkamsnudd. Leiddum getum að því hvort einhver önnur starfsemi en nudd ætti sér stað þarna, en við þeim vangaveltum fékkst ekkert svar. Við Ágústa sátum loks fram á miðja nótt uppá herbergi ásamt Helga Róbert, spjölluðum saman, sötruðum bjór, reyktum, skoðuðum myndir og umpökkuðum farangrinum, þar eð við myndum þurfa að tékka okkur út morguninn eftir.

Björn Thorarensen

Athugasemdir: 1

4/8 2007

Ég byrjaði daginn á því að fara í Dunkin' Donuts og fá mér morgunverð. Á leiðinni heim þá leit ég inn í grímubúð og keypti um 20 grímur, ég var greinilega orðinn smitaður af kaupgleði samferðamanna minna.

Síðan hitti ég nokkra úr hópnum og við skelltum okkur í Hi-Mart til að...já, versla smá. Við leituðum logandi ljósi að vasaútvarpi fyrir pabba hennar Ágústu, en það fannst ekki frekar en fyrri daginn. Við héldum eftir þetta niður aðalgötuna og litum við í grímubúðinni, aftur. Í þetta skiptið keypti ég bara eina trúðaregnhlíf, sem ég veit ekkert hvað hefur orðið af núna. Langaði svolítið til að kaupa 100 glowsticks, en hætti við, hvað í ósköpunum ætti ég svosem að gera við 100 glowsticks? En þeir voru ódýrir, það vantaði ekki.

Eftir að fólk hafði keypt nægju sína af grímum þá héldum við aftur inn á Dunkin' Donuts, nammi namm. Ég veit ekki hvernig aðrar Dunkin' Donuts búðir eru annarsstaðar í heiminum en hrísgrjóna kleinuhringirnir í Dunkin' Donuts í Suður-Kóreu eru nú ekkert sérstakir. Þegar hinir í hópnum voru búnir að snæða kleinuhringina sína þá skiputm við liði, allir að versla. Versla, versla, versla. Ég, aftur á móti, fór upp á hótel og gerði mig kláran fyrir kínaför og pakkaði því sem ég gat, komst að því að ég þyrfti eiginlega að kaupa aðra ferðatösku. Þá mundi ég eftir því að á NEATA kvöldinu þá var okkur afhent forláta skjöldur með þökkum fyrir komuna til Suður-Kóreu, svaðalega flottur, og auðvitað gleymdi ég honum þar, bara var alveg stolið úr mér að ég hefði tekið við honum, veit ekki af hverju. Allavega, þá hringdi ég í Eriku, annan af guidonum okkar, og hún létti áhyggjunum af mér og sagði mér að hún myndi koma með skjöldinn seinna. Ok, sumir af hópnum voru farnir í Home Plus, þ.a. ég skellti mér þangað, sagði einhver versla? Ég verslaði mér ferðatösku fyrir allt draslið sem ég var búinn að vera að kaupa. Síðan upp á hótel og þar voru guidarnir okkar og skjöldurinn var kominn ofan í tösku hjá Sigga P. Gott mál.

Nú var kominn tími til að kveðja þetta aðsetur okkar og var allur farangurinn ferjaður út á götu. Eigandi Arirang hótelsins stóð og horfði á þetta farangursfjall og bauðst til að keyra hluta af því út á flugvöll, sá greinilega fram á að þetta myndi ekki einu sinni komast í risarútuna sem við fengum til að keyra okkur. Við stigum upp í Airport Limousine rútuna og þvílíkur munaður! Flottasta rúta sem ég hef komið í, geðveikt þægileg sæti, algjör Saga Class hvað?

Við lögðum í hann og kvöddum Barböru Smith með virktum, skildum hana eina eftir í Masan.
Þegar komið var á Busan flugvöll tók það heljarinnar tíma að merkja og tékka inn farangur og ferðafólk þar sem hóparnir voru þrír sem voru að fara: Huld/Siggi/Álfheiður til Köben, Hörður/Hrefna/Siggi P til Íslands og afgangur til Peking.Við skiptum kössunum niður á hópana, einhver lagði til (Bjössi) að þeim yrði bara fargað. Ekki M&M kössunum! Guðlast!

Þegar við vorum loks búin að tékka inn, þá komum við okkur fyrir og hópurinn tvístraðist til að ... versla, ég var skilinn einn eftir til að passa farangur, búhú. Ég var að vona að ég gæti nú allavega eytt þessum 20.000 Wonum sem ég
átti eftir. Aðrir í hópnum voru orðnir nokkuð Wonlitlir og sumir alveg Wonlausir. Ég var ennþá Wongóður.

Rétt áður en farið var út í flugvél tókst loks að smala öllum saman þ.a. hægt væri að afhenda gjöf til BÍL. Nokkrum dögum áður höfðu Gísli, Helgi, Addi, Siggi P. Bjössi og Bylgja látið taka fjölskyldumynd af sér í neðanjarðarmarkaðnum
og fengið hana innrammaða. Vibba lofaði að hún yrði hengd upp á áberandi stað á skrifstofu BÍL, farið endilega og skoðið hvernig Kóreumenn fótósjoppa íslendinga.

Á slaginu 19:45 að Búsönskum tíma var tekið á loft, flugið var tíðindalaust og klukkan 20:45 að Pekingskum tíma lentum við á Peking flugvelli. Eftir flugvallarútuferð og nokkur tollhlið þá skildust leiðir með hópunum. Allir voru voða leiðir yfir að þurfa að kveðjast og við tókum ekki gleði okkar fyrr en hóparnir hittust aftur aðeins innar í
flugstöðinni.

Inni í flugstöðinni þá reyndum við að fá upplýsingar um hvernig við kæmumst á Harmony Hotel, þetta leit út fyrir að taka eiðinnar tíma, þ.a. ég og Addi fórum að pissa. Á leiðinni tilbaka heyrðum við ógurleg hróp og píkuskræki og rétt framhjá okkur labbaði Babyface (kínverskur rappari) ásamt lífvörðum sínum, lögguhóp og 100 skríkjandi smástelpum með hvítar og bláar blöðrur. Við fórum í örstutt Hacky-Sack áður en haldið var út til að ná í leigubíl.

Þegar við vorum komin út þar sem við héldum að við gætum tekið leigubíla, þá var enga leigubíla að sjá. Í stað þess þá komumst við í kast við taxamafíuna í Peking. Einn gaur kom og bauð okkur taxa, við sáum engan taxa nálægt þ.a. við vorum ekki mjög jákvæð í hans garð, en þá kom annar vinur hans og buðu okkur 3 taxa á 300 Yuan hvern, tekur 1 tíma og 20 mínútur á Harmony Hotel sögðu þeir. Eftir mikla rökstóla þá ákváðum við að slá til, þá drógu þeir okkur af stað...að lyftum og niður á -3. hæð. Okkur fór nú ekki að lítast á blikuna. Þar niðri voru engir taxar, aðeins ómerktir bílar og það voru komnir 3 bílar þar með mis skuggalegum fýrum sem voru að reyna að troða töskunum í bílana. Þá var okkur nóg boðið og við ákváðum að hætta við. Náðum í allar töskurnar úr bílunum og komum okkur tilbaka upp á jarðhæð en ekki fyrr en ég borgaði þeim 100 Yuan fyrir óþægindin sem við þeir urðu fyrir við að bjóða okkur far.

Þegar við komum upp á 1. hæð þá var allt morandi í leigubílum og aftur byrjuðu samningaviðræður. Þetta endaði á að verða 4 bílar sem hver kostaði 120 Yuan og við tók 40 mínútna akstur á Harmony Hotel. Frábært hótel með öryggisverði sem hafa það að atvinnu að drepa moskítóflugur. Herbergin eru stór og góð, við Helgi fáum núna sitt hvort rúmið.

Við fórum síðan út að borða. Áður en lagt var af stað stukkum við Addi inn á Harmony Sauna sem er við hliðina á hótelinu, við lofuðum að koma aftur seinna þ.s. þetta var nuddstofa og fengum melónusneiðar að gjöf. Við fundum núðlustað eftir stutt labb, gaman að snæða hjá Mr. Lee, Bjössi var nú ekkert sérlega ánægður með soðna beikonið sem hann fékk og aðrir voru svona misánægðir með matinn sem borinn var fram. Undir borðum fóru fram miklar rökræður um virði Yuans og líklega er 1 Yuan = 7,5 ísl krónur.

Við lukum kvöldinu með því að fara í nudd, Ég og Addi tókum medical massage sem kostaði 98 Yuan sem heitir reyndar rimnibi í Kína, eða 98 RMB og Bjössi og Bylgja fengu sér svæðanudd fyrir 68 RMB. Það voru allir mjög ánægðir með nuddið, en mér hætti að lítast á blikuna þegar nuddarinn (kvenmaður) bað mig að fara úr buxunum og ég held að Addi, sem lá á bekk við hliðina á mér hafi einnig verið svolítið brugðið. Síðan var innanlærið á mér nuddað af krafti...think unsexy thoughts, think unsexy thoughts. En þetta var frábært nudd og Addi fékk sér annað eins daginn eftir.

Hvað ætli Peking beri í skauti sér? Ég kemst að því á morgun.

Gísli Björn Heimisson

2/8 2007

Ef einhver sem þetta les heyrir í einhverjum af Mementó-hópnum í Kóreu (Sem þyrfti reyndar að vera fyrir kraftaverk þar sem ekki næst í þau í síma) má hann gjarnan koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:

Góðan daginn. Viljið þið vera svo væn að hafa samband við mig þar sem CA flugfélagið er að biðja um vegabréfsupplýsingar frá ykkur öllum en þeir segja að þeir afpanti flugið ef þetta er ekki komið til þeirra 3. águst. Ég veit ekki hvort þeir séu með skrifstofu þar sem þið eruð en ef svo er væri kanski einfaldast að hafa samband við þá beint. Þið getið líka sent mér þessar uppýsingar á E-Mail, vegabréfsnúmer,fæðingadag, og daginn sem vegabréf rennur út. netfangið mitt er helgama@icelandair.is

kveðja
Helga Magnúsdóttir

Þetta barst í kommentakerfið í Mementó-dagbókinni í morgun. Ég rak augun í þetta nánast á sömu stundu og hópurinn steig á svið þar eystra. Mér skilst að símarnir þeirra virki ekki þarna, en ég sendi þeim tölvupósta og sms eins og vítlaus manneskja upp á von og óvon. Vona bara að einhver hringi heim eða fari í póstinn sinn í frumsýningarvímunni... sem er nú kannski ekkert sérlega líklegt...

Annars verður Kóreudeild Hugleix bara að vera til frambúðar...

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir

Athugasemdir: 3

2/8 2007

Jæja þá er stóri dagurinn runninn upp. Memento Mori í Changwon 2.8.2007, stundin sem heimsbyggðin hefur beðið eftir.
Dagurinn hófst þannig að Ágústa, Hrefna, Hörður, Addi og Bjössi mættu í leikhúsið kl 9:00 til að píska áfram kóreanska tæknimenn og sjá til þess að leikmynd og búningar virkuðu sem skildi. Rétt fyrir hádegið mætti svo afgangurinn af hópnum í langferðabifreið í boði Mr. Lee. Næstu klukkutímar snérust að mestu leiti um tvennt út frá mínum áhuga-áhugaleikara augum:

1.Að töfra fram snilld leikaranna og fá tæknimenn til að hitta með ljós og hljóð á rétta staði og augnablik sem reyndist auðvelt. Mikilvæg hjálpartæki í þessum efnum voru headset græja Ágústu sem fékk reyndustu flugumferðarstjóra til að bráðna og einn starfsmaður leikhúsins sem really talaði og heyrði ensku. Á ákveðnum tímapunki þóttist Ágústa komast með tærnar þar sem sýningarstjórar þjóðleikhúsins hafa hælana.
2.Vangaveltur um hvort burðarþol búninga stæðist magakveisur og niðurgang. Fyrirbyggjandi aðgerðir fólust m.a. í því að borða ekkert sem gæti komið óhörnuðum vestrænum maga á óvart. Þar kom Paris Baguette baguette og Pepsi sterkt inn.

Þegar spennustigið var við að náð hámarki ákváðu undirritaður og Álfheiður að freista gæfunnar í nærliggjandi verslunarmiðstöð í von um annars vegar að verða klipin(n) og dáð(ur) og hinsvegar að fjárfesta í myndavél. Til að gera langa sögu stutta tókst okkur ætlunarverkin fullkomlega. Þegar við snérum aftur í leikhúsið tók við rauverulegur mannlegur harmeikur. Glæpur hafði verið framið. Rán!!! Júlía hafði gert út af örkinni til að kaupa eftirsýningarskálunardrykki og uppgötvaði við kassann að hún var fullkomlega WON laus. 100.000 WON voru horfin úr veskinu. Hmmm… Fljótlega féll grunur á alla úr leikhópnum eins og Agötu Kristí sæmir, en auðvitað var það skúringakonan sem var sek, eða hvað? Leikhússtjórinn mætti á svæðið og tók málið mjög nærri sér en neitaði þó að reka eða húðstrýkja skúringakonuna grunuðu.
Þegar hér var komið við sögu var of stutt í sýningu til að við gætum rannskaða málið nánar og því látið niður falla en býður hinsvegar upp á frábært tækifæri fyrir frjó höfuð til að rita leikverk. Nú tók við lokaundirbúingurinn: Síðasta klósettferðin, búningurinn og smink með góðri aðstoð frá Siggu Dís.
Sýningin:
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá u.þ.b. 75% sýniningarinnar.
Mr. Lee mætti ekki. Frammistaða hópsins var ljómandi. Heimamenn gleymdu svolítið að hlæja og bregðast við á réttum augnablikum en frændur okkar reyndu að bæta fyrir það. Kærar þakkir til þeirra. Almennt held ég að allir hafi farið nokkuð sáttir af sviði og úr sal þar sem báðir hópar renndu nokkuð blint í hafið. Eftir sýninguna var boðið upp á “fótó opportjúnití” þar sem kóreanskar unglingsstúlkur mynduðu nýjustu hejtjurnar sínar grimmt með 3. kynslóðarsímunum.

Þar sem samgöngur hafa spilað stóra rullu í lífi okkar hér eystra er ekki hægt að sleppa þeim úr þessum pistli.
Í gærkvöldi var tekin ákvörðun á nokkuð heitum fundi um að reyna að negla niður samgönguáætlun frá Tjávan heim á hótel þar sem fyrri samgönguáætlanir höfðu sjaldnast ræst. Okkar yndislegu Asley & Erica höfðu lagt fyrir þá spurningu hvort við vildum koma í bleikustólaþangcillisesamolíusalinn í mat fyrir eða eftir sýninguna. Erfið spurning… Lendinginn varð svo rúta beint eftir sýningu og taxi þaðan á Moskítobarinn skömmu síðar þar sem planað var NEATA partí, semsagt þanglaust kvöld.
Hljómar einfalt ekki satt? “Mííí Hjúmaaa nigga” Einum og hálfum tíma eftir sýningu enduðum við í míníbúss (sem vissi ekkert alltaf hvert hann var að fara og reyndi m.a. að keyra Siggu Dís niður) og leigubílum heim á hótel þar sem auðvitað beið okkar, já nema hvað, rúta á Mosqító.
Lærdómurinn:
Sama hvað þér dettur í hug að plana í Kóreu, þú endar alltaf með aaaaðeins annað plan.

Eftirköstin:
Hópurinn tók rútu upp brekkuna miklu á áður nefndan bar. Undirritaður sinnti hinsvegar föðurlegum skyldum sínum á sama tíma (og slátraði nokkrum feitum moskítoflugum á sama tíma). Af hátíðarhöldum ber helst að nefna samkvæmt orðrómi:
- Mr. Lee mætti og flutti huggulegt útipartí í 6000 manna háskólamatsal þar sem ekki mátti reykja.
- NEATA partíið breyttist skjótt í þjóðhátíð Bangladess og Spánar.
- Helgi Róbert lét heimasæturnar taka númer svo hann gæti þeytt þeim öllum um dansgólfið.

Sigurður Högni Jónsson

1/8 2007

Jæja. Heitt heitt heitt og sveitt í S-Kórea – og hvað annað er títt þennan miðvikudaginn 1. ágúst?

Af leiklistar hátíðinni er það helst að frétta að það eru engar leiksýningar fyrr en um kvöldið – af hverju? Enginn veit nema óútskýranleg öfl og S-Kóreumenn og þeir vita það eiginlega ekki – eða kannski ekki og þó kannski en samt varla nema þeir spyrji einhvern sem veit eitthvað kannski en þó varla … hljómar bara svei mér þá eins leikrit eftir mig … en þó ekki … nema kannski …

Íslendingar aldeilis hressir og sprækir upp eins kækir eldsnemma dags ákveðnir í að fara til Busan - næststærstu borgar S-Kóreu sem rúmar einhverjar nokkrar milljónir manna. Okkar einkasjálfboðaliðar sváfu yfir sig af því að nokkrir úr hópnum ásamt Svíum höfðu haldið þeim upp á næturklúbbi fram eftir nóttu – svona er þetta – en einhvern veginn eftir mátulegan misskilning skröltum við af stað – meira að segja ásamt nokkrum Svíum. Busan blasti við úr fjarlægð … Breiðholt hvað!? Þau settlegu sambýlishús sem við Íslendingar þekkjum eru ekki fjölbýlishús. Hér eru BLOKKIR með BLOKKUM við BLOKKIR. Háar, mjóar og ma-ha-ha-argar.

Ferðinni var heitið á Hae-undae ströndina sem er sú stærsta og tilkomumesta í allri S-Kóreu. Eftir talsvert ferðalag í ýmsum farartækum var komið á leiðarenda. Og ég vona svo sannarlega að þetta sé stærsta strönd landsins. Gersamlega óviðjafnanlegt! Eins og segir í ferðahandbókinni minni – fullkominn staður við þig, þína fjölskyldu og 500.000 af þínum félögum í fullu fjöri!! Þarna svo sennilega samankomnir fleiri en samanlagðir Íslendingar hvar sem þeir fyrirfinnast í heiminum. Mílulangar breiður af sólhlífum svo þétt raðað að engin sól komst á þær raðir Kóreubúa sem dreifðu sér um sandinn. Þeir sem ekki sátu brugðu um sig miklum og breiðum sólgulum sundkútum og hlupu skríkjandi út í sjó. Kóreubúar af öllum stærðum og gerðum og aldri og klæðaburði fleygðu sér með kútana sína í hafið og hlógu eins og hýenur. Í stuttum og síðum buxum, bolum og peysum, sandölum eða sundfötum með hatta eða ekki – allir hlógu. Ég hef komið til nokkurra landa á fleiri en eina strönd – en aldrei hef ég séð jafnmikið af fólki á jafnstuttum tíma jafnþétt skemmta sér jafnvel! Svona á að gera þetta. Eftir að við höfðum gapað, hlegið, blotnað og myndað fylli okkar var rölt um. Margarita og markaður – fer vel saman. Og hvernig hljóma eftirréttirnir Brownie Bottom Pie og Death by Chocolotae? Sumir fóru á sædýrasafn en aðrir mynduðu eitthvað af þeim fjölmörgu sædýrum sem seld eru lifandi og dauð á götum úti. Ágætis ferð.

Heimferðin tók drjúga stund og hópurinn skipti sér á tvær sýningar. Sumir þóttust ætla að ná þeirri norsku á réttum tíma en aðrir þeirri slóvensku aðeins of seint. Allir urðu á endanum seinir en náðu þó leikhúsi. Ég sá þá norsku, sú sama og var í Færeyjum og alveg þess virði að sjá aftur. Í fyrsta sinn sem ég segi það um norska leiksýningu. Helvíti góðir strákarnir, fínt handrit og flottur leikur. Þeir höfðu stillt þannig upp í leikhúsinu að áhorfendur sátu nokkuð nálægt þeim sitthvoru megin. Það var dásamlegt að horfa á kóreönsku unglingana á fremsta bekk – elsku litlu dúkkudúllurnar missa sig alveg þegar við þessi evrópsku celebs koma of nærri – það er flissað og skjálfað og farið hjá sér.

Eftir sýningu var hist á hóteli. Nokkrir skelltu sér út í pizzu – mjög skemmtileg afgreiðsla – par sem hljóp um allt ákveðin í að allt ætti að koma “verlí kúrikúrlí” (very quickly – fyrir ykkur sem ekki talið kór-ensk-önsku). Barbara Smith kom í heimsókn en ég ætla að ekki að lýsa henni frekar að svo stöddu og býð góða nótt.

Haffa kaman – liffa lífinu – saman – Masan!

Hrefna Friðriksdóttir

Athugasemdir: 2

31/7 2007

Dagurinn byrjaði heldur snemma, eða um hálfníu en þá var klukkan um hálftólf á miðnætti heima á Fróni. Morgunmaturinn á hótelinu okkar er mjög western, kornfleks, steikt egg, ristað brauð og litlar beikonræmur. Fallega útskornir ávextir skreyta svo diskinn, appelsínusafi til hliðar, vatn og ágætis mjólk. Að morgunverði loknum er svo boðið upp á kaffilíki, sem er oftast volgt. Mr. Bragakaffi hefur greinilega ekki haft viðkomu hér á víðreisn sinni um heiminn :/ Eftir morgunmat tókum við Taxa niður á Burmamarket, en ákveðið var að njóta frelsisins þennan dag og kemba markaðinn enn betur. Leigubílarnir eru hræódýrir hér, en það kostar um 2-5ooo kw. að komast á milli staða (milli 2-5 dollarar) og er það okkur ráðgáta hvernig leigubílstjórar fara að því að eiga salt í grautinn, eða núðlu í vatnið. Við vorum sett út á ákveðnum gatnamótum, en þar var greinilega fiskihlutinn af markaðnum og þar var sko boðið upp á undarlega fiska og allskonar skrýtið sem við kunnum oft lítil skil á. Lifandi álar í bölum, þurrkaðir froskar, riskaskelfiskur í tönkum og ég veit ekki hvað og hvað... og lyktin maður! Í 30 stiga hitamollu magnast hún gífurlega upp og það blandað saman við rakann gæti fengið harðasta Ísfirðing til að roðna. Við ákváðum að splitta hópnum upp og fara hvert í sína áttina en hittast á veitingastaðnum sem Júlía talaði um. Við Einsi komum þangað á undan öllum öðrum, enda ekki mikið verslunarfólk... gátum þó fjárfest í rakvélablöðum á helmingi lægra verði en heima og keypti ég mér einnota rakvélar... var farin að halda að kóreubúum yxi ekki hár undir höndum, enda sést engin með skegg eða konur með loðna leggi.. en hvergi gat ég fundið neinar rakvélarnar. Ég spurði Ashlee (önnur leiðsögumanna okkar) hvernis standi á því að enginn karlmaður sé með skegg þá svaraði hún því til að allir vildu vera snyrtilegir og því rökuðu sig allir... og þá meina ég allir... það sést ekki einu sinni smá yfirvaraskegg á þeim sem vilja vera öðruvísi, enda vill greinilega enginn vera öðruvísi. Hvað um það, við Einsi komum á veitingastaðinn á undan öllum öðrum og fengum okkur kjúklingasalat og kók, en þjónninn kom að vörmu spori með eitthvað allt allt annað... setti Youtube skeið af því á bloggið mitt ef þið viljið skoða: www.siggadis.blogspot.com

Eftir hádegismat á staðnum, þar sem allir fengu loks sitt og enginn þurfti að bíða óvenju lengi þá var gerð önnur atlaga að markaðnum en við áttum svosem frjálsan dag alveg til kvöldmats en þá var Galadinner á vegum hátíðarinnar.

Rúturnar komu að sækja okkur því dinnerinn er í Changwan, eða næsta bæ. Þessi Galadinner reyndist svo vera GaGaLadinner! Þarna var boðið upp á fordrykki, gin, tonik eða hvað menn vildu í sig láta í sig og fínir þjónar á hverju strái. Dinnertinn hófst á ræðum og klappi fyrir allskona körlum sem gáfu hátíðinni aur, þ.a.m. forstjóri verslunarkeðju einnar og fleiri kóreukarlar sem ég kann engin skil á. Boðið var upp á margra metra langt hlaðborð sem svipaði til þess sem var á opnunarhátíðinni, kolkrabbar í allskonar útfærslum, steikt kál vaðandi í tjillý, núðluréttir, sushi og svo mætti lengi lengi telja... ég hafði ákveðið að vera ,,villt á því" þetta kvöld og prufa eitthvað nýtt - enda hafði enginn fengið í magann eftir fyrri hlaðborðið. Ég endaði á að setja tvo framandi rétti á diskinn minn, sem mér fannst vera vondir og endaði í djúpsteiktum kjúkling... eða ég held það hafi verið kjúklingur... er amk ennþá á lífi :-) Ekki gott fyrir ófríska pikkí konu að fara á svona hlaðborð en maður náði að eta mettu sína á endanum... Þegar ræðuhöldum lauk og almennum rassakossum tóku við ,,Dynamic Korean performances" en ég hafði hlakkað mikið til að sjá þau, enda punguðum við út 50.000,- fyrir dinnerinn (og ekki var ég að borga fyrir matinn....). Á svið sté saxafónleikari einn ágætur sem tók nokkra slara og í kjölfarið á honum fylgdi stúlka ein sem söng Whitney Huston rosalega vel, svo vel að Bobby Brown sjálfur hefði orðið snortinn! I will always Love You hjómaði ógurlega hátt, svo hátt að Álfheiður greyið fór að hágráta, líklega af innlifun :/ Þegar því var lokið sté sjálfur Sang Yung Lee á svið og hélt tölu og tilkynnti að hátíðinni hefði borist fjárframlag frá vini okkar að upphæð 180.000 dollarar... ,,so drink all you can tonight my friends!" Lét svo þess getið í endann að ,,partýið" væri búið eftir 20 mínútur! Þá var klukkan rúmlega níu.. ekki annað hægt að segja um Kóreubúa að þeir kunna sko vel að halda Partý með stóru Pjéi... Gaman væri að bjóða Mr. Lee á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og sýna honum sanna merkingu orðisins Partý... :) Áður en dinnernum lauk var tími fyrir hópmyndatöku sem endaði á að allir sungu ,,Sang Young Lee" hástöfum eins og sönnum þegnum þessa ríkis sæmir. Yfirgaf ég þá salinn, enda var rjóminn farinn að vella um allt og maður hreinlega rann til í rassakossunum...Við drifum okkur upp í minibus og á hótelið, en Álfheiður mótmælti hástöfum enda vissu hún vel að partýið var ekkert búið svona snemma. Við sungum Sofðu unga ástin mín fyrir hana og sofnaði hún eftir 4 erindi, þessi elska :-) Við ákváðum að fá okkur einn nightcap saman í morgunverðarsalnum, þar sem við gátum verið út af fyrir okkur og spjallað án þess að trufla aðra hótelgesti. Sumir í hópnum höfðu mælt sér mót við Svíana á stað sem hét Arabian nights og skemmtu sér vel þar fram á nótt í karioky og kenndu innfæddum að dansa eins og vindurinn. Þau höfðu þar sér herbergi til að stunda sinn söng og gátu sameinað salernisferðir og söng, því það voru sér klefar til að kasta af sér í hverjum bás og náði víst snúran alveg inn á klósett. Þegar þau stéu þess á milli á dansgólfið þá hreinlega tæmdist það, enda höfðu Kóreubúar líklegast aldrei séð svona aðfarir á dansgólfunu, klöppuðu og horfðu hugfangnir á á meðan Íslendingar og Svíar hristu á sér skankana sem vitlausir væru. Aðdáunin skein víst í hverju auga á meðan aðrir skeindu sér á meðan gaulað var. Undirrituð var hinsvegar farin í langferð inn í draumaheiminn og missti því af þessari heljarinnar skemmtun og hefur aðeins orð viðstaddra fyrir fjörinu... sem það ekki dýrara en ég keypti þetta...

Biðjum agalega vel að heilsa heim!

Siggadís

Sigríður Hafdís Benediktsdóttir

30/7 2007

Að afloknu íslensku teiti á moskítóbarnum rann upp dagur hinna miklu búferlaflutninga. Eftir 4 nætur á heimavistinni átti að flytja á hótel og eyða þar síðustu 5 nóttunum. Það var þó með blendnum huga, því það þýddi að við vorum ekki lengur í samneyti með okkar ágætu vinum í hinum leikhópunum og þá sérstaklega þeim sænska og litháíska. Loforðin gengu þó á milli um að við myndum halda sambandi og hittast þegar færi gæfust.

Íslenski gleðskapurinn sem tókst stórvel, hafði teygt sig fram undir morgun hjá sumum og dæmi um að tveir hafi mæst á salerninu, annar á leið á fætur en hinn í háttinn.

Um ellefuleytið var hinsvegar allsherjarræs því menn þurftu að taka saman föggur sínar til að vera tilbúnir þegar langferðabifreið kæmi klukkan tólf að flytja hópinn á hótel. Það hafðist nokkurnveginn þótt ferðatöskunum hefði nú fjölgað nokkuð síðan lagt var af stað frá Fróni og innihaldið aukist að sama skapi. Hótelið reyndist hið ágætasta en eitthvað stóð það í hópnum að fyrir utan 3 herbergi var aðeins boðið upp á tvíbreið rúm. Það leystist þó að lokum og almennt var fólk fegið að fá meira rými fyrir sig og sitt hafurtask og skárri beð en hörðu kojurnar sem voru á heimavistinni.

Eftir innskráningu var haldið út til að snæða og nú virtust allir búnir að fá nóg af kóreönskum mat í bili og endaði hálfur hópurinn á McDonalds og hinn á Pizza Hut. Undirritaður rúllaði ásamt fleirum út af Pizza Hut eftir að hafa "óverdósað" á pizzu með ostafyllingu og pepperóní. Nýja hverfið var kannað en þegar hallaði undir kvöld voru loksins leiksýningar á boðstólum. Undirritaður fór á sýningu Tékka sem nefndist Groteska. Þar var boðið upp á þöglu mynda-minni þar sem allar slapstick-klisjurnar voru blóðmjólkaðar. Ágætlega gert og sumt mjög vel. Sýningin fór reyndar misvel í íslendingana en sá er hér skrifar skemmti sér ágætlega.

Eftir sýningu var haldið sem leið lá upp á heimavist því Litháarnir höfðu boðið í teiti. Buðu þeir upp á þjóðlega rétti eins og pylsu og ost og að sjálfsögðu hinn görótta drykk Starka. Enginn annar en Sang-young Lee, forseti kóreska leiklistarsambandins og framkvæmdastjóri hátíðarinnnar var mættur á staðinn. Eins og fram hefur komið annarsstaðar hefur fátt eitt staðist í skipulagi hátíðarinnar og Lee auðvitað ábyrgur fyrir því en vinurinn lét eins bjargvættur mannkyns og skipaði sínu fólki fyrir til hægri og vinstri og færði gleðskapinn úr stað. Ekki var það þó innandyra heldur var eitt af bílastæðum háskólans tekið eignarnámi um stund og sett þar upp borð og hengdir upp borðar. Einhver stóisk ró hefur færst yfir mannskapinn og uppákomur sem þessar vekja ekki lengur furðu heldur koma út einhverskonar mæðubrosi á andlit manna. Óhætt er að segja að þetta land og fólkið sem það býr er afar ólíkt öllu öðru sem við höfum kynnst. Hvernig sem allt fer má fullyrða að þetta ferðalag verður öllum sem það fóru ógleymanlegt.

Hörður Sigurðarson

29/7 2007

Jæja, þá er að rekja atburði þessa 4ra sýninga dax. Við Siggadís fórum allt of snemma á fætur, enda höfðum við ekki legið í ölæði alla nóttina eins og hefð hefur komist á innan hópsins. Fórum í morgunmat og hlökkuðum mikið til að fá franskar og muffins eins og okkur hafði verið boðið uppá í breakfast daginn áður. Okkur að óvörum var nú boðið uppá blómkálssúpu og pulsu með sinnepi... ekki síður skettlet það.

Röltum svo með Júlíu í gegt æslett bakaríi sem hafði uppgötvast daginn áður og hámuðum í okkur sætabrauð og kaffi áður en næsta verslunarferð tók við í Lotte Mart. Svo var étið meira.

En, nóg um mat. Næsta verk var að skella á kóræfingu til að undirbúa kvöldið, en við höfðum neflinlega skellt upp auglýsingu kvöldið áður um að við ætluðum að bjóða öllum uppá "taste of Iceland" þá um kvöldið og því ekki seinna vænna að byrja að kyrja Hver á sér fegra, Krummi svaf í klettagjá, Undir bláum sólarsali og Barbie Girl.

Þetta virtist ætla að virka þannig að nú var hlaupið á fyrstu sýningu daxins:

"Il Folle" frá Ítalíu.
Þar voru 3 leikarar í svörtum fötum sem hreyfðu sig á mjög artí hátt og einn í viðbót í hvítum sem kveinaði og barmaði sér á meðan.... ég skildi ekki skít í neinu og bölvaði mikið að hafa ekki náð að lesa synopsisinn fyrir sýninguna. Las hann eftirá og varð ennþá meira ringlaður fyrir vikið. Hef ekki enn þann dag í dag náð að berja fram neitt sem líkist fatti hvað þessa sýningu varðar. En, af því að næsta sýning byrjaði á slaginu sem þessari sleppti, þá reyndum við nokkur að laumast út þegar ca. 10 mínútur voru eftir af þessari, nema hvað að brosandi kóreumaður þverneitaði að hleypa okkur út. Þessi sýning tók sem betur fer enda fljótlega og hlupum við og Hörður og Hrefna og Júlía og Gísli útí brjáluðustu rigningu í heimi til að komast á næstu sýningu í næsta leikhúsi. Blaut inn að beini skröngluðumst við inn í MBC til að sjá:

Sa.Choom frá Kóreu
Þetta reyndist vera unglingarúnkið sem Huld talaði um, nema núna í fullri lengd. Guð minn góður. Ég hef engan smekk fyrir danssýningum og þetta var mikil slík. Mér fannst sýningin sjálf leiðinleg, en að horfa á áhorfendur var alger upplifun. Skrækirnir og öskrin sem unglingarnir og liðið rak upp af minnsta tilefni (og oft engu) voru súrrealísk. Svo sanngirni sé gætt verð ég að nefna að dansararnir voru mjög góðir þanneigin og hefðu allir átt fullt erindi í að leika í "Breakdance 2".

Eftir þessa sýningu fannst okkur nauðsynlegt að fara og kaupa okkur þurr föt og brugðum okkur inní slíka búð og brúkuðum við Sigga lyftuna þar sem skiptiklefa... Spennandi að sjá hvort við næðum að klæða okkur úr og í aftur á milli hæða og viti menn það hafðist, sem betur fer, þar sem regla númer 7 fyrir gesti er að "make sure no shameful things happen when outside". Svo, éta meiri kórenskan mat (sem er allur farinn að bragðast eins) og svo að sjá:

Danced Poems frá Danmörku.
Danskt. Dansleikhús. 'nuff said.

Í þráðbeinu framhaldi var setið sem fastast því þá hófst sýning sem ég var persónulega soldið spenntur fyrir:

Myanmar Marionette Performance frá... well, Myanmar betur þekkt sem Burhma.
Hræðilegt hræðilegt og ömurlegt í alla alla staði. Sýning sem manni finnst maður hafa slitið stólunum í húsinu að ástæðulausu og skilur mann eftir orðlausan. Í stuttu máli voru þarna 2 konur með fáránlega sítt hár og einn kall með eitthvað í ætt við túrban á hausnum með strengjabrúður sem þau kipptu í, upp og niður og hægri og vinstri. Engin sjáanleg tækni (enda flæktust strengirnir oft), engin saga (enda voru öll 'sketchin' kynnt sem dansar) og tónlist sem gat drepið hest undir öllu saman. Maður ætti kannski bara að vorkenna fólki sem elst upp við svona lagaða menningu.

Jæja, þá var sýningum daxins lokið og við bússuðum okkur uppá dorm að setja upp partýið sem við höfðum auglýst. Nema hvað að skipuleggjendur hátíðarinnar höfðu tekið auglýsinguna niður til að auglýsa bjórkvöld fyrir þær þjóðir sem misstu af receptioninni daginn áður. Ef engin skyldi hafa minnst á það fyrr, þá er engin festival klúbbur og því var stéttin fyrir utan dormið orðin að slíkum af því að þar var einn stóll. Núna höfðu skipuleggjendur í undirbúningnum fyrir bjórkvöldið bætt við 2 borðum og 3 stólum í viðbót og álteppi á stéttina til að sitja á. Þetta þjóðnýttum við hið snarasta og upstage-uðum partýið þeirra með okkar og, eins og alltaf, slógum í gegn með brennivíni og lakkrís og miklum söng og gleði. Þegar partýið var komið vel í gang byrjuðu kóreumenn að segja okkur brosandi að núna væri partýið búið og allir þyrftu að fara inn og hætta hávaða (þetta er jú háskóladorm og próf daginn eftir) sem við harðneituðum að gera og skelfing áttu þeir erfitt með að skilja það. Þannig fór að partýið breyttist í fjölþjóðlega óhlýðnisamkomu sem mótmælti hástöfum vanefndum stjórnvalda sem höfðu frá fyrsta degi lofað okkur klúbb og bar en gert ekkert í málunum. Málamiðlunin varð sú að reykingar voru leyfðar á öllum stöðum í húsinu (voru hvergi leyfðar áður) og mesti hávaðinn fluttur inn í hús, en minni hávaði hafður úti. Stóð þetta teiti enn þegar undirritaður sofnaði og enn þegar undirritaður vaknaði daginn eftir.

Skál

Einar Þór Einarsson

Athugasemdir: 4

28/7 2007

Það hafði verið svo mikið fjör á morskítóbarnum kvöldið áður að mitt herbergi fór ekki á fætur fyrr en liðið var undir hádegi. Púha hvað þetta var heitur dagur: sól, rakamolla og 35°c. Í morgun-/hádegismat var skellt sér með rútu á veitingastaðinn sem býður okkur hlaðborð dagsins öll hádegi og kvöld. Veit ekki hvort það var chilli-þangið, þang-grjónin, sushið, þang-núðlusúpan eða hinir 200 bleiku brúðarstólar í salnum sem gerðu það að verkum að þetta var mín síðasta máltíð á staðnum. Þetta var bara ekki að gera sig á fastandi maga. Eftir matinn röltum við með Ashley og Eriku í Hagkaupsmollið þar sem reynt var að eyða péningum. Þar voru verslaðir ódýrir æpodar, barnaföt og allskonar drasl. Mín fjölskylda náði reyndar ekki að eyða neinu þar sem við stóðum föst fyrir þvögu af Kóreubúum sem dáðust að Álfheiði. Hér í borg eru einhverjar þúsundir sem eiga orðið myndir í fínu 3ju kynslóðar farsímunum sínum af litla hvíta barninu með kringlóttu augun. Þarna voru fullorðnar konur farnar að gráta og lamast í hnjánum af væmni og potuðu svo í kinnarnar á henni, klöppuðu tánum, liftu upp höndunum o’so videre.
Úr mollinu var rölt yfir á Ólympíska sviðið þar sem Svíarnir vinir okkar léku sínar listir. Sýninguna sá ég ekki nema hálfa því ég þurfti að sinna þörfum Álfsins, en hún ku víst hafa verið mjög góð (sýningin altso). Þá var komið að hinni próblematísku skiptingu á hópnum. 5 fóru í tveggja tíma ferð til að sjá Makedónana sem þau sögðu vera frábæra. 5 aðrir urðu eftir og sáu Þjóðverjana sem voru líka sagðir frábærir. Við 5 sem eftir voru, litla fjölskyldan og formennirnir fórnuðum okkur á Opening Ceremony. Fyrir utan gyllta leikhúsið hófst trommudans u.þ.b. 20 gamalmenna í trúðabúningum og með klappstýrudúska á hausnum. Þau voru alveg yndislega skemmtileg, með margar skrítnar trommur og mis góð í að halda takti. Það vakti athygli okkar að helmingur þeirra bar þjóðlega leikfimiskó með uppbrettri tá og hinn helmingurinn hlaupaskó!? Inni hófst svo gríðarlegt ræðu fargan þar sem hver kínakallinn stóð upp á fætur öðrum til að halda langar og leiðinlegar kóreanskar ræður og láta enn fleiri kínakalla standa upp í salnum og láta klappa fyrir þeim. Kynnirinn var frægur kóreanskur leikari sem fyrirmennin voru víst ákaflega hrifin af ef marka má túlkinn sem gat ómögulega talað ensku svo við skyldum sama sem ekkert af því sem fram fór fyrsta klukkutímann. Loks kom að skemmtiatriðunum sem voru Kóreukonu dans, Kóreukalla ástardúett, Kóreukalla trommu- og hattadans og svo ,,leik”sýning. Þessi sýning var víst útdráttur úr heilli sýningu sem er seinna á dagskrá. En VÁ! Aldrei hefur fleiri hitaeiningum verið brennt á sviði. Þarna voru 20 algerlega frábærir unglings dansarar að dansa ástarsögu. Þetta var algjör orkubomba: gleðibankabúningar í svörtu, hvítu (já það var sko blacklight) og silfruðu, brjálæðislega hávær teknótónlist sem gekk allan tíman og svo unglingaskak. Þetta var tæknilega frábær sýning, alls ekki leiksýning þó, og mikið þótti mér erfitt að sitja þarna og finnast ég vera að horfa á unglingaklám - svo mikið var skakið og lítil fötin. En það sem kætti okkur enn meira voru áhorfendurnir. Þarna voru öskrandi unglingsstúlkur og smástelpur sem dýrkuðu töffarana á sviðinu. Þær görguðu meira en við á Helga Róbert í Elvishlutverkinu. Ég held ég hafi grátið úr hlátri.
Eftir showið var svo mikil reikistefna um það hvert ætti að fara með okkur í mat en loks komust Ashley og Erika að því að við ættum að mæta í Opening Festival Dinner á Savoy Hotel. Við mættum þangað í okkar sveittu hlýrabolum og fengum höfðinglegar móttökur. Te að hætti heimamanna, glæsilegt 2000 rétta hlaðborð., eftirréttir, kaffi, vín og gos. Namm. Það var tvennt sem stóð upp úr kvöldinu. Annað var fiðlu og flautu teknónúmerið sem var skrúfað upp í 11. Hitt var Sang Yong Lee forseti bandalagsins hér (eða e-h) sem gekk um og heilsaði upp á hvert borð með kamerumann með sér sem tók stillmyndir af honum með hverju borði á stóra sjónvarpstökuvél. Algjör kóngur.
Þegar heim var komið lenti Ágústa í kakkalakkastríði við kakkalakka á stærð við skjaldböku. Ég var eina manneskjan sem missti af atriðinu en það mun hafa tekið á taugar og því lyktaði þannig að Addi og Júlía náðu að koma kvikindinu (sem þau gátu ekki drepið fyrir mjög svo þykkri skelinni) í handklæði og senda Kóreanskann vin okkar með það út úr byggingunni til lífláts. Hann stökk með hann á veitingastað frænda sins í næsta nágrenni. Aftur var svo sest á moskítóbarinn, í þetta sinn fengu Álfheiður og Saga jafnaldra hennar frá Svíþjóð að halda pajamapartý á meðan svo við skemmtum okkur fram á nótt með svíunum.

Huld Óskarsdóttir

Athugasemdir: 3

27/7 2007

Tha kemst eg loksins til ad blogga um daginn. Vid uppgotvudum aedislegt bakari herna rett fyrir nedan af tvi vid nenntum ekki i morgunmat og hungrid var farid ad sverfa ad. Thar keypti eg mer aedislegt braud med rjomaostafyllingu. Ef madur gaeti etid himnariki tha vaeri thad thannig a bragdid. Alveg aedi! Kaffihus eru her ekki audfundin en vid saum hvar McDonalds merkid blasti vid adeins nedar og stormudum thangad. Their attu thetta fina kaffi latte, meira ad segja Lavazza. Vid vorum alsael )) Tha var klifrad aftur upp i dormitory, ja klifrad segi eg tvi thetta er med brattari brekkum og tho kalla eg ekki allt ommu mina i theim efnum hafandi buid i San Francisco i fyrra lifi! Shopping trip var naest a dagskra og var farid med okkur nidur i Subway og thar reyndist vera kilometerslong verslunargata. Einhverju tokst okkur nu ad koma i log af peningunum okkar thar. Svo atti ad fara med ekkur a fiskmarkadinn eftir hadegismatinn en vid straekudum og heimtudum ad fara a Burim markadinn thar sem vid agirntumst koreanska buninga sem sviarnir og thjodverjarnir syndu okkur i hadeginu. Eg vil bara segja ad eftir tha ferd er alveg ljost ad sett verdur upp einhverskonar syning thar sem thessir buningar koma vid sogu, ad minnsta kosti einthattungur. Hugsanlega verdur einn karakterinn graenhaerdur....eg segi ekki meir. Vid vorum ordin ansi bjorthyrst eftir alla peningaspanderinguna..., thad er ad segja allir nema vid Addi sakleysingjarnir. Su barferd er eitt af aevintyrunum her tvi thad tok til daemis klukkutima ad fa fyrstu afgreidslu! Thjonarnir komu fjorum sinnum og skrifudu nidur pontunina fyrir 16 manns, thrjar mismunandi bjortegurndir o.so.videre en loksins thegar bjorinn kom var sama tegundin handa ollum en their hofdu dullad ser vid ad binda litlar serviettur utanum stutana til ad vid mundum ekki meida litlu puttana a skruftappanum:) Alveg makalaust skemmtilegt. 'Iskaffid mitt smakkadist einstaklega vel eftir klukkutima bidina. Thetta hefur allt verid fest a filmu asamt fleiru og synt tho sidar verdi.Eftir kvoldmatinn var haldid heim a leid og hresst uppa sig og sidan stofnadur hatidarklubbur hid snarasta fyrir utan framdyrnar ad dorminu tvi thad hefur alveg klikkad hja skipuleggjendum eins og margt annad ad hugsa fyrir svoleidis. Thad vaeri of langt mal ad segja fra hvada vesen var vegna thess ad thysku og Makedonsku syningarnar eru a sama tima og opnunarhatidin er a morgun og vid viljum endilega sja syningar en ekki hlusta a einhverjar raedur. En malid var leyst og Huld segir ykkur fra tvi a morgun. Ad lokum vil eg segja ad eg vildi ekki slipta a Koreonsku hita- og svitasumri og okkar sumri i sumar. Okkar heima var miklu meira aedi fyrir mig og marga fleiri. Ad loknum lokum moto Koreufara er: Haba gaman saman Masan! Liba libinu! Astarkvedjur til allra heima. Vid getum ekki notad simana okkar herna og thess vegna ekkert hringt. Love you all og kossar til Ragnars, Sollu og Soru ef thau lesa thetta xxxxxxxxxxxxxxxxx

Júlía Hannam

Athugasemdir: 5

26/7 2007

Takk Siggi.. jaeja loksins vorum vid komin a leidarenda.. eg man ekkert rosalega mikid eftir flugvellinum i Pusan ef eg a ad segja eins og er enda buin med nokkrar roandi i thessu flugferdamarathoni.. en eg man ad vid vorum mjog glod ad sja allan farangurinn koma eftir faeribandinu thar sem vid hofdum ekki sed hann sidan i kef og voru nokkur taekifaeri fyrir eins og einn kassa eda eina tosku ad tynast a leidinni. Uppi rutu og fra Pusan til Masan og a heimavistina med farangurinn.. okkur til mikillar brennslugledi tha er adkeyrslan ad heimavistinni svo brött ad rutan treysti ser ekki alla leid upp hehe.. thannig ad vid sjaum fram a ad labba upp thessa brekku nokkud oft a komandi dogum og komum thvi heim spikk and span og stinnari .. og sjalfsagt stirdari en nokkru sinni adur ;)
Svo skelltum vid okkur asamt fararstjorunum i sma gonguferd um borgina.. skruppum i bankann og.. nei biddu thad er ekki alveg haegt ad segja skreppa i bankann thvi thad aetladi ekki ad ganga upp fyrr en gellan i bankanum breytti eitthvad hradbanka-apparatinu og jeiiii vid gatum tekid ut Won.. alveg fullt.. og thar sem 1000 Won eru ca. 60kr. tha vorum vid med haug af sedlum ;) Allir klarlega ordnir sjukir i eitthvad rennandi og var rolt ut um allt ad finna pub eda eitthvad til ad tylla okkur i eins og einn kaldann.. en nei, thad gekk ekki alveg upp heldur.. stelpurnar "fararstjorarnir" voru ad leita og leita ad stad fyrir okkur en allt lokad.. ciesta i fullu fjori.. allir bara ad fa ser middagslur.. en vid bara skelltum okkur i Lotte Mart og keyptum bjor og snakk og forum uppa heimavistina i Kwongnam University og helltum i okkur einum og odrum langthradum koldum og svo uppi rutu og a stadinn sem vid bordum kvold- og hadegismat.. flott hladbord, allskonar gomsaetir rettir eins og kimchi sem er traditional rettur her i Koreu (kryddad graenmeti...VEL kryddad graenmeti).. rosa sterkt.. og betra ad blanda sma hrisgrjonum med thvi til ad finna bragd af restinni af matnum ;) Eftir matinn var farid aftur uppa heimavist og sma spjall og sma ol.. svo bara farid ad sofa.. tho klukkan vaeri ekki nema 21..a stadartima en um hadegi heima.. enda buin ad vaka nanast i tvo solarhringa :)

Bylgja Ægisdóttir

Athugasemdir: 4

25/7 2007

Loksins komumst vid i samband, ad kvoldi fostudagsins 27/7. Faeri her inn fyrri hluta ferdalagsins, sem spannar ju tvo daga.

Eg maetti i seinna lagi ut a voll, enda var eg med baedi konu og barn medferdis. Thaer maedgur voru a leid til Amsterdam, halftima eftir brottfor okkar. Aetla svo ad hitta mig aftur i Leifsstod ad kvoldi 5. agust.

Thetta gekk nu vonum framar. Flugferdir voru agaetar, thott langar vaeru. Fundum Sigga, Huld og Alfheidi i Frankfurt, og heldum sem leid la til Peking.

Her tharf ad segja fra brennivinsdramanu i Frankfurt. I theirri tru ad vid vaerum i transit birgdum vid okkur upp af islensku brennivini, svona til ad koma utlendingunum a bragdid. I Frankfurt vorum vid svo snarlega komin ut fyrir oll hlid og thurftum aftur i gegnum oryggisskodanir. Okkur fannst aedi liklegt ad thydverskir myndu halda ad vid aetludum ad sprengja velina med ollum thessum brennsa, thannig ad gripid var a thad rad ad trodfylla bakpokann hans Helga af veigum og tekka hann inn. Thegar til kom thotti thad sem ekki komst i bakpokann svo sarameinlaust og var hleypt i gegn, enda innsiglad i bak og fyrir i Keflavik.

I fluginu til Peking for Hugleikur svo i annad sinn yfir Volgu. Og svo yfir Ob. Og Jenisej. I Peking tok vid hin mesta skriffinnska bara til ad komast i adra vel, afram til Pusan. Ein abending fyrir tha sem aetla i flug med Air China: Ef bodid er um val milli kinversks og vestraens morgunmatar - veljid vestraent!

Thetta telst nu med innihaldslausari faerslum, enda var thessi dagur 9 klukkutimum styttri en venjulegir dagar. Thegar midnaetti brast a vorum vid ekki einu sinni komin til Peking, vorum einhverstadar yfir Siberiu, thannig ad eg er thegar farinn ad syndga og a ad hleypa naesta bloggara ad. Yfir til thin, Bylgja!

Sigurður H. Pálsson

24/7 2007

Smá forskot á bloggsæluna. Nú stendur lokaundirbúningur sem hæst:

- Misvel þefjandi búningum troðið í töskur, og kannski nokkrum stuttermabolum líka. Ekki gleyma tannburstanum, það er óvíst að svoleiðis fáist í Kóreu.
- Sníktur lakkrís og geisladiskar til gjafa.
- Köttum komið í pössun hjá öðrum kattvænum áhugaleikurum.
- Reynt að festa í minni kóreanska frasa. "Takk." "Góðan dag." "Ég vil hundasteikina mína medium rare."
- Stungið niður þeim aukaefnum sem hverjum og einum þykja nauðsynleg: ofnæmistöflur, magastillandi, og ekki síst... "stopppillurnar". Eins gott það séu ekki lyfjapróf á svona hátíðum.
- Rennt í gegnum texta í huganum, þó maður viti að maður kann hann alveg.
- Hlakkað til næstum sólarhrings ferðalags, og svo alls hins sem á eftir kemur.

Fokkatú!

Sigurður H. Pálsson

Athugasemdir: 9