Nóbelsdraumar (1999)
Höfundur: Árni HjartarsonLeikritið gerist í atvinnuleikhúsi í Reykjavík sem á við fjárhagslegan og listrænan vanda að stríða. Nýr leikhússtjóri, Rósant Rósinkranzson, hefur verið ráðinn að húsinu til að koma rekstrinum í lag. Hann hefur að vísu ekkert vit á leiklist en er gamalreyndur jaxl úr viðskiptalífinu og er með háskólagráðu í gæðastjórnun. Hann veit sem er að það eina sem getur bjargað fjárhagnum er dúndrandi kassastykki og það strax. Hann ræður því til sín frægar stjörnur, Fjólu Fífilsdóttur, sem hefur verið að gera það gott sem leikstjóri í London og París og skáldið Hallfreð Högnason, ástmög þjóðarinnar, sem búinn er að fá bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og þykir jafnvel líklegur til nóbelsverðlauna. Í leikhúsinu starfa landsþekktir leikarar, prímadonnurnar Geir og Gyða, hinn trausti leikari Hrafn Svansson, sem alltaf verður að sætta sig við aukahlutverk, ungstjörnurnar Bjartur og Lóa, snillingar í spuna, matfreyjan Salka Völkudóttir og margir fleiri. Auk þeirra koma við sögu sjónvarpsfréttamenn, blaðamenn og sjálfur forseti Íslands.
Þótt Hallfreður sé eftirlæti þjóðarinnar er hann hið mesta vandræðaskáld og fíkill og fljótlega kemur í ljós að það er verulega farið að halla undan fæti hjá honum. Andagiftin er þrotin en þeim mum betur tekst honum að hræra upp í tilfinningalífi leikaranna enda hefur hann víða komið við á langri og sukksamri ævi. Útlitið er því ekki bjart fyrir leikhúsið og starfsfólk þess þegar skáldið er borið út eftir að hafa tekið stóran skammt í æð og enginn veit hvort það lifir eða deyr. Og látin skáld fá ekki nóbelsverðlaun. Tjaldið fellur og það er komið hlé. Það sem gerist eftir það er ekki gefið upp. Söngur og tónlist setja svip sinn á sýninguna. Átta sönglög og einn söngleikur í fjórum köflum eru í verkinu.
Söngtextar:
PrologusLöngu dánar ástir
Gyða
Frystikistufónía
Nóbelstangó
Ég hlakka svo til
Blekking er best
Ástartöfratónaflóð
Hann hvarf á brott í svartri rennireið
Sett upp af Hugleik:
Möguleikhúsið (1999) |